Engra tíðinda að vænta út vikuna?

Mótmælendur úr nei-fylkingunni komu saman í Aþenu í dag. Fréttamaður …
Mótmælendur úr nei-fylkingunni komu saman í Aþenu í dag. Fréttamaður Sky News sagði í dag að mjótt væri á munum milli já og nei, en að varast bæri að taka of mikið mark á fjölmiðlum í Grikklandi hvað þetta varðar. Samkvæmt vinstrisinnuðum dagblöðum ætluðu mun fleiri að kjósa nei, en ef marka mætti sjónvarpsmiðlana væri þessu öfugt farið. AFP

Fjármálaráðherrar evruríkjanna hafa gefið út að frekari viðræður um skuldavanda Grikklands muni ekki fara fram fyrr en að afstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu sem forsætisráðherra landsins hefur boðað til á sunnudag.

Fyrr í dag kviknuðu vonir um að fallið yrði frá atkvæðagreiðslunni, eftir að nýjar tillögur að samkomulagi bárust frá grískum stjórnvöldum, en eftir herskátt sjónvarpsávarp Alexis Tsipras í dag, þar sem hann lýsti því m.a. yfir að atkvæðagreiðslan myndi sannarlega fara fram, staðfesti Jeroen Dijsselbloem, leiðtogi evruhópsins, að viðræður hefðu verið settar á ís framyfir helgi.

Mikil óvissa er um framhald málsins og Grikkir síður en svo í öfundsverðri aðstöðu. Skilaboð ráðamanna í Evrópu og stjórnvalda í Grikklandi hafa verið á þvers og kruss og allsendis óvíst um hvað er kosið.

Spurningin á atkvæðaseðlinum fjallar um tillögu lánadrottna gríska ríkisins sem lögð var fram á föstudag, en ef marka má ræðu forsætisráðherrans hefur tilboð þeirra tekið breytingum síðan.

Grikkir virðast því í þann mund að ganga að kjörborðinu til að kjósa um úrelta tillögu, sem vandar val þeirra enn frekar. Ef þeir segja já, þá eru þeir að samþykkja verri skilmála en nú standa til boða ef marka má forsætisráðherrann, og ef þeir segja nei.. ja hver veit?

Nokkrir helstu leiðtogar Evrópu hafa sagt að þjóðaratkvæðagreiðslan snúist um framtíð Grikklands í evrusamstarfinu, og jafnvel Evrópusambandinu. Nú er hins vegar gefið í skyn að viðræðum verði áfram haldið eftir atkvæðagreiðsluna.

Tsipras ítrekaði í ræðu sinni í dag að þjóðaratkvæðagreiðslan snérist ekki um evru eða drökmu, heldur skref í átt að hagstæðara samkomulagi. Hann vandaði viðsemjendum sínum ekki kveðjurnar og sagði grísku þjóðina hafa verið kúgaða.

Téðir viðsemjendur voru ekki par hrifnir af ræðu Tsipras ef marka má Financial Times:

Þá sparaði Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands, ekki stóru orðin þegar hann ávarpaði þýska þingmenn í dag og sagði að gríska stjórnin hefði ekki gert nokkurn skapaðan hlut síðan hún tók við völdum, aðeins gengið á bak orða sinna.

„Við vitum ekki hvort gríska ríkisstjórnin ætlar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki, hvort hún er fylgjandi eða á móti. Þið getið ekki í allri alvöru ætlast til þess að við eigum viðræður við hana við þessar aðstæður. Við verðum að bíða og sjá hvað gerist í Grikklandi,“ hafði Reuters eftir Schauble.

Það má ráða það af atburðaráðs og ummælum síðastliðna viku að draumaútkoma viðsemjenda Grikkja úr atkvæðagreiðslunni væri hávært „já“ og hagfelld stjórnarskipti í kjölfarið.

Á meðan hvorugur aðili gefur sig liggur þó ekki annað fyrir hinum almenna borgara í Grikklandi en að bíða átekta út vikuna og vona hið besta.

Bankastarfsmaður afhendir ellilífeyrisþegum númer, en bankar opnuðu aftur í dag …
Bankastarfsmaður afhendir ellilífeyrisþegum númer, en bankar opnuðu aftur í dag fyrir þá lífeyrisþega sem ekki notast við greiðslukort. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert