Lögðu jarðsprengjur innan um líkin

Sprengjusérfræðingur skoðar sprengjubelti sem liðsmenn Boko Haram skildu eftir.
Sprengjusérfræðingur skoðar sprengjubelti sem liðsmenn Boko Haram skildu eftir. AFP

Hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa drepið nærri 200 manns undanfarna tvo sólarhringa í Nígeríu. Forseti landsins, Muhammadu Buhari fordæmir árásirnar sem og kallar þær „ómanneskjulegar og villimannslegar.“

Vígamenn Boko Haram hafa gert fjölda árása í kringum Borno síðan á miðvikudaginn og skotið niður fólk sem er á bæn í tilefni af Ramadan og skotið fólk inni á heimilum sínum.

Ungur kvenkyns sjálfsmorðssprengjuárásarmaður drap 12 þegar hún sprengdi sig í loft upp í mosku í Borno. Þó svo að Boko Haram hafi ekki lýst ódæðisverkunum á hendur sér er vitað að samtökin beita fyrir sig bæði ungum mönnum og konum við sjálfsmorðssprengjuárásir.

Þegar rökkva tók áttu nígerískar hersveitir í átökum við mikinn fjölda vígamanna úr sveitum Boko Haram, sem virtust ákveðnir í að ráðast á Daidurgui, höfuðborg Bornofylkis, en samtökin eiga rætur sínar að rekja til hennar.

„Muhammadu Buhari forseti hefur fordæmt þessar síðustu árásir, sem hann lýsir sem þeim ómanneskjulegum og villimannslegum,“ segir í yfirlýsingu frá forsetaembættinu.

Blóðsúthellingarnar eru þær verstu síðan Buhari tók við embætti í maí. Þá hét hann því að binda enda á óöldina, sem hefur kostað meira en 15.000 manns lífið. Allt að 50 vígamenn á mótorhjólum réðust á þorpið Mussa í þessari síðustu hrinu árása, hvar þeir skutu þorpsbúa og brenndu heimili þeirra. Þetta hefur AFP eftir Bitrus Dangana, sem lifði árásirnar af.

„Þeir drápu sex manns í þorpinu og hröktu fólki út í skóg með því að skjóta á það. Þeir drápu 25 manns eftir að þeir höfðu hrakið fólkið út í skóginn,“ sagði hann.

Adamu Bulus, sem lifði einnig af árásirnar, staðfestir að 31 hafi verið drepinn. Þetta er í fjórða skipti sem Boko Haram ráðast á þorpið undanfarið ár að sögn Sundat Wabba, sem vinnur við æskulýðsstarf í þorpinu. „Þeir drápu allt sem þeir sáu,“ sagði hann.

Líkin lágu eins og hráviði

Fréttir af fjöldamorðunum bárust fyrst í gær, fimmtudag, þegar fólk sem lifði árásirnar af lét vita af þeim. Hryðjuverkasamtökin gerðu árásir á þrjú þorp, og er talið að að minnsta kosti 145 hafi látið lífið í þeim, auk þess sem fjöldamörg hús voru brennd til kaldra kola.

Í dag bárust svo frekari fréttir af drápum frá íbúum þorpsins Kukawa, sem er nærri Chad-vatni. Það varð verst úti í árásunum.

Baana Kole sagði við AFP fréttastofuna að honum og öðrum hefði tekist að flýja út í skóginn þar sem þeir dvöldu yfir nóttina. Þegar þeir komu til baka til að jarðsetja þá sem höfðu verið drepnir sáu þeir að vígamennirnir höfðu skilið eftir jarðsprengjur um allt.

„Sumir íbúanna sem földu sig í trjám sáu þá setja niður jarðsprengjurnar og vöruðu okkur við þegar við komum til baka til að jarða hina látnu,“ sagði hann. „Það eru svo mörg lík eftir í Kukawa sem liggja eins og hráviði. Við þurftum að skilja þau eftir því við gátum ekki borið þau með okkur.“

Innan við sólarhring síðar sprengdi stúlkan sig í loft upp í mosku í Malari-þorpi, yfir 150 kílómetrum frá staðnum þar sem árásirnar á miðvikudaginn áttu sér stað.

„Sprengjumaðurinn var stúlka, á að giska 15 ára, sem sást við moskuna þegar fólk var að undirbúa síðdegisbænir,“ sagði Danlami Ajaokuta, einn þeirra sem hefur upp á sitt einsdæmi tekið upp vopn í baráttunni gegn Boko Haram.

„Fólk bað hana að fara því hún átti ekki erindi þar og fólk kunni ekki við að hafa hana þarna vegna þess fjölda kvenna sem hafa framið sjálfsmorðsárásir á vegum Boko Haram. Hún lét líta út fyrir að hún væri að fara en þegar fólkið var komið inn í moskuna tók hún tilhlaup og hljóp inn og sprengdi sig,“ bætti hann við. Gajimi Mala, íbúi í þorpinu, staðfestir þessar lýsingar hans.

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu.
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu. AFP
Fórnarlömb árása Boko Haram.
Fórnarlömb árása Boko Haram. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert