Fjöldi hermanna drepinn í óvæntri árás

Herlið frá Tsjad á ferð. Mynd úr safni.
Herlið frá Tsjad á ferð. Mynd úr safni. AFP

Að minnsta kosti 24 hermenn Afríkuríkisins Tsjad voru drepnir og fleiri úr röðum þeirra særðir eftir árás sem þeir urðu fyrir við Tjad-vatnið í gær. Grunur leikur á um að herskáir íslamistar hafi verið að verki.

„Hermenn sem voru að snúa til baka úr eftirlitsferð voru að hvílast þegar Boko Haram réðst á þá,“ segir aðstoðarhéraðsstjórinn Haki Djiddi í samtali við fréttastofu AFP í dag.

Talsmaður hersins, hershöfðinginn Azem Bermandoa Agouna, staðfesti að árás hefði átt sér stað á eyju í vatninu, en vildi ekki gefa upp fjölda látinna.

Eiga sér bæli við vatnið

Tjad-vatn nefnist viðamikið svæði vatna og mýrlendis sem liggur á landamærum Níger, Nígeríu, Kamerún og Tsjad.

Íslamistar á vegum Boko Haram og annars hóps, sem kallar sig Ríki Íslams í Vestur-Afríku, hafa nú í áraraðir átt þar griðastað og ráðist þaðan á hermenn og almenna borgara.

Yfirvöld í Tjad kenna íslamistana oft við samtökin Boko Haram án þess þó að ganga úr skugga um við hvað þeir kenna sig sjálfir.

Idriss Deby hafði verið forseti Tjad frá 1990.
Idriss Deby hafði verið forseti Tjad frá 1990. AFP

Forsetinn drepinn og ríkisstjórnin leystist upp

Í mars á síðasta ári voru um hundrað tjadneskir hermenn drepnir um miðja nótt á Bohoma-skaganum í vatninu. Þáverandi forseti landsins, Idriss Deby Itno, lét til skarar skríða gegn íslamistum í kjölfarið.

Deby var svo drepinn fyrr á þessu ári, í apríl, í bardaga við uppreisnarmenn í norðurhluta Tjad.

Í hans stað gekk sonurinn Mahamat Idriss Deby Itno, nema nú sem leiðtogi herforingjaráðs, þar sem ríkisstjórn landsins leystist upp með fráfalli föðurins.

Mahamat Idriss Deby, leiðtogi herforingjaráðsins í Tjad.
Mahamat Idriss Deby, leiðtogi herforingjaráðsins í Tjad. AFP

Boko Haram hófu uppreisn í Norður-Nígeríu árið 2009 og hafa síðan breiðst út í nærliggjandi lönd.

Samkvæmt talningu Sameinuðu þjóðanna hafa 36 þúsund manns látist af þeirra sökum, flestir í Nígeríu, og þrjár milljónir manna neyðst til að yfirgefa heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert