1.400 aftökur frá árinu 2000

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Tæplega 1.400 opinberar aftökur fóru fram í Norður-Kóreu á árunum 2000-2013. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn. Þar segir enn fremur að flestar aftökurnar hafi verið árið 2009 er 160 manns voru teknir af lífi. Þá er talið að aftökum hafi fjölgað hratt síðan árið 2013.

Rannsóknina gerði stofnun sem styrkt er af yfirvöldum í Suður-Kóreu. Niðurstöðurnar voru fengnar með ítarlegum viðtölum við flóttafólk frá Norður-Kóreu. Alls er óvíst hversu margar aftökur til viðbótar hafa farið fram fyrir luktum dyrum.

Fjölmiðlar í Norður-Kóreu hafa aðeins greint frá tveimur aftökum árið 2014 og engri á þessu ári.  Fjölmiðlar í nágrannaríkinu Suður-Kóreu hafa hins vegar sagt frá því að þúsundir voru þvingaðir til að fylgjast með opinberum aftökum í  landinu árið 2013. Þá hafi fjöldaaftökur farið fram á íþróttaleikvöngum.

Í frétt Guardian um málið segir að í skýrslunni komi fram að opinberar aftökur séu haldnar öðrum til viðvörunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert