Vissi ekki að hann hefði drepið neinn

Sanchez var að eigin sögn undir áhrifum svefnlyfja.
Sanchez var að eigin sögn undir áhrifum svefnlyfja. Skjáskot

„Ég tók byssuna upp og hún fór að hleypa af skotum af sjálfsdáðum,“ segir hinn 45 ára gamli Fransisco Sanchez, sem heldur því fram að ótrúleg atburðarás hafi valdið því að hann skaut konu á fertugsaldri til bana í San Fransisco síðasta miðvikudag.

Þannig segist hann hafa setið á bryggjunni og fundið byssuna þar vafða inn í stuttermabol. Kveðst hann hafa verið undir áhrifum svefnlyfja sem hann fann í nálægum gámi, auk þess sem sjón hans sé ekki upp á marga fiska. Hann vissi því ekki að skotin þrjú sem hlupu úr byssunni hefðu hæft neinn fyrr en hann var handtekinn klukkustund síðar.

Lögregluþjónar fundu Sanchez eftir að hafa skoðað ábendingar og myndir úr farsímum gesta á bryggjunni. Engin tengsl virðast vera milli hans og fórnarlambsins, Kate Steinle, sem var í kvöldgöngu með föður sínum á svæðinu þegar atvikið átti sér stað. Hún féll í jörðina þegar skotin hæfðu hana og biðlaði til föður síns um hjálp áður en hún gaf upp öndina.

Sanchez, sem er frá Mexíkó og var ólöglega í landinu, rölti rólega af vettvangi og fannst hjá nálægum veitingastað klukkustund síðar. Hann hefur verið ákærður fyrir morðið á Steinle. Í samtali við KGO fréttaveituna sagðist hann vilja fá þá refsingu sem hann ætti skilið og vonaði að „henni yrði lokið af eins fljótt og unnt væri“. Honum hefur fimm sinnum verið vísað úr landi í Bandaríkjunum, en í viðtalinu kvaðst hann sífellt snúa aftur í leit að vinnu.

Frétt Sky News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert