Uppgjöf eða nauðsyn?

Stofna á sjóð sem heldur utan um þær eignir gríska …
Stofna á sjóð sem heldur utan um þær eignir gríska ríkisins sem á að einkavæða. Meðal annars verða hafnir einkavæddar. AFP

Það eru eflaust ekki auðveldir dagar framundan hjá Alexis Tsipras forsætisráðherra Grikklands þegar hann þarf að sannfæra þjóð sína um að hafa gert rétt með því að ganga að samkomulagi við lánardrottna landsins. Uppgjöf eða nauðsyn? 

Eftir sautján tíma fundarhöld í Brussel þá náðist loks málamiðlun í viðræðum Grikkja við evruríkin um fyrirkomulag á þriðja björgunarpakkanum á aðeins fimm árum. Grikkir þurfa að taka á sig enn frekari niðurskurð og lánardrottnar þurfa að reiða fram tugi milljarða evra til þess að halda Grikklandi á floti og inni í evrusamstarfinu. 

Rúm vika er síðan gríska þjóðin hafnaði tillögu lánardrottna með miklum meirihluta. Nú hefur Tsipras gengið að skilmálum sem þykja svipa mjög til þess sem lagt var til á sínum tíma. Hans bíður nú það hlutverk að sannfæra eigin flokk um ágæti samkomulagsins. Að því loknu að koma samkomulaginu í gegnum gríska þingið.

Verður að reiða sig á stjórnarandstöðuna

Tsipras er fertugur að aldri og fyrrverandi kommúnisti. Hann komst með látum til valda í janúar meðal annars vegna loforða um að stöðva niðurskurðarhnífinn sem hafði verið reiddur til höggs í nokkur ár. Nú þarf hann að leggja fram samkomulag sem þykir af gagnrýnendum það sem „niðurlægi“ Grikkja meira en fyrri samningar sem lágu að baki tveimur björgunaraðgerðum frá árinu 2010.

Talið er fullvíst að hann verði að reiða sig á stuðing stjórnarandstæðinga og Evrópusinna til þess að fá aðgerðirnar samþykktar. 

Því má ekki gleyma að á sama tíma hefur Grikklandi verið forðað frá gjaldþroti í óeiginlegri merkingu þess orð og Grikkland verður áfram innan evrusvæðisins, líkt og meirihluti grískra kjósenda vill. En margir Grikkir telja að þeir hafi verið niðurlægðir ef marka má fréttir fjölmiðla eins og AFP, Guardian, Telegraph, BBC og New York Times.

Uppgjöf er orð sem margir nota á samfélagsmiðlum í gær og í dag og nú þarf Tsipras að sannfæra þetta fólk um ágæti þess að gera breytingar á eftirlaunalífeyri, skattahækkanir og að stofnaður verði skuldaendurgreiðslusjóður. Í hann renna eignir gríska ríkisins sem á að einkavæða. Það sem fæst fyrir þær eignir verður notað til þess að greiða niður lán ríkisins. Talað er um að sjóðurinn verði 50 milljarðar evra og af þeirri fjárhæð renni 25 milljónir í afborganir af skuldum en hitt í fjárfestingar sem eiga að örva hagvöxt í Grikklandi. 

Fá ekki lán fyrr en gríska þingið hefur samþykkt

Tsipras fær ekki langan tíma til þess að sannfæra gríska þingmenn um þetta og fá samþykki þeirra því fyrr fá Grikkir ekki brúarlán afgreitt. Lán sem gerir þeim mögulegt að standa við skuldbindingar sínar á mánudag gagnvart seðlabanka Evrópu.

Ekki er ólíklegt að samkomulagið leiði til þess að kosningum verði flýtt, Tsipras muni áður gera breytingar á ríkisstjórn sinni og reka þá frá völdum sem standa gegn tillögunum. 

Það er mikið í húfi því samkomulagið sem er til þriggja ára hljóðar upp á björgunarpakka sem metin er á 86 milljarða evra, 35 milljarða fjárfestingarpakka, loforð um afskriftir á hluta skulda og það sem er kannski það mikilvægasta í augnablikinu, fjármögnun til handa grískum bönkum.

Seðlabanki Evrópu
Seðlabanki Evrópu AFP
Nú á Alexis Tsipras eftir að sannfæra grísku þjóðina um …
Nú á Alexis Tsipras eftir að sannfæra grísku þjóðina um ágæti samningsins. AFP
Enn frekari niðurskurður blasir við Grikkjum en á sama tíma …
Enn frekari niðurskurður blasir við Grikkjum en á sama tíma hefur gjaldþroti verið forðað AFP
Grísku bankarnir eru óðum að tæmast og má vart tæpara …
Grísku bankarnir eru óðum að tæmast og má vart tæpara standa AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert