Frelsuðu 29 konur og 25 börn

Herinn er í sókn gegn Boko Haram.
Herinn er í sókn gegn Boko Haram. AFP

Nígeríski herinn frelsaði í dag 59 úr haldi Boko Haram, þar á meðal 29 konur og 25 börn. Þetta er afrakstur sóknar hersins gegn öfgahópnum í norðausturhluta landsins.

Fólkið var frelsað þegar herinn réðist inn í tvennar búðir Boko Haram í Konduga héraði í Borno í gær, um 35 kílómetrum suðaustur af ríkishöfuðborg Borno, Maiduguri. Þetta er haft eftir Tukur Gusau, talsmanni hersins.

„Fjöldi hryðjuverkamanna var felldur í aðgerðum hersins,“ sagði Gusau. Auk kvennanna og barnanna voru fimm aldraðir karlmenn frelsaðir í aðgerðum hersins.

Mallam Modu Goni, einn gíslanna sem herinn frelsaði, sagði að fjöldi vígamanna Boko Haram hafi rænt honum og fleirum í sama þorpi. Hann hafi verið þvingaður til að „lifa í marga daga án matar áður en herinn bjargaði þeim í gær.“

Fyrr í vikunni bjargaði herinn 30 gíslum, þar af 21 barni. Boko Haram hafa rænt þúsundum óbreyttra borgara í árásum á þorp og bæi í Nígeríu og í nærliggjandi löndum. Þeir sem ekki eru múslimstrúar eru þvingaðir til að taka þá trú.

Samtökin hafa einnig notað ungar stúlkur til sjálfsmorðsárása.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert