Takmarka veiðar í Simbabve

Mótmælendur hafa nú í nokkra daga mótmælt fyrir utan tannlæknastofu …
Mótmælendur hafa nú í nokkra daga mótmælt fyrir utan tannlæknastofu Palmers í Minnesota. AFP

Yfirvöld í Simbabve hafa ákveðið að takmarka veiðar á dýrum í nágrenni við Hwange-þjóðgarðinn í landinu. Ákvörðunin er tekin í kjölfar þess að bandaríski tannlæknirinn Walter Palmer drap ljónið Cecil með boga og ör fyrr í mánuðinum.

Bannað verður að veiða ljón, hlébarða og fíla í nágrenni við þjóðgarðinn og tekur bannið strax gildi.

Þá verða veiðar með boga og ör jafnframt bannaðar, nema að leyfi fáist frá yfirvöldum.

Cecil var eitt ástsælasta ljón Afríku. Hann var þrettán ára gamall þegar hann var lokkaður út úr þjóðgarðinum með beitu og skot­inn með boga og ör. Talið er að það hafi tekið Cecil um fjörutíu klukku­stund­ir að deyja.

Veiðimaður­inn Walter Pal­mer frá Minnesota greiddi fimmtíu þúsund Banda­ríkja­dali fyr­ir veiðina.

Oppah Muchinguri, umhverfisráðherra Simbabve, hefur kallað eftir því ða Palmer verði framseldur til landsins og svari fyrir ólögleg athæfi sín. Tannlæknirinn hefur beðist afsökunar á drápinu og vill meina að hann hafi verið blekktur af leiðsögumanninum Theo Bronkhorst sem skipulagði veiðiferðina. Bronkhorst var látinn laus gegn tryggingu síðasta miðvikudag eftir að hafa verið ákærður fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir ólöglega veiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert