Blind kona rekin út af McDonalds í Noregi

McDonalds
McDonalds AFP

Norskri konu, Tinu Marie Asikainen, var vísað út af McDonalds stað í Fredrikstad á föstudag ásamt fimm ára gamalli dóttur vegna þess að þær voru með blindrahund með sér. Asikainen er blind og nýtur aðstoðar frá Rex sem er sérþjálfaður blindrahundur. Brottvísunin gengur gegn norskum lögum, að því er fram kemur á vef norska ríkisútvarpsins.

„Við vorum með Rex með okkur þegar við pöntuðum matinn,“ segir Asikainen í viðtali við NRK. Hún segir að Rex hafi verið kyrfilega merktur sem blindrahundur en áður en þær borðuðu voru þær beðnar um að yfirgefa staðinn þar sem þær væru með hund. 

Asikainen segir að starfsmenn skyndibitastaðarins hafi neitað að hlusta á mótmæli hennar og ábendingar um að samkvæmt norskum lögum þá ætti hún rétt á því að taka blindrahundinn með sér. Skipti engu að hún sýndi þeir skjöl þar að lútandi.

„Þau höfðu engan áhuga á að lesa þau. Það voru örugglega 20 viðskiptavinir á staðnum sem fylgdust með því þegar fimm starfsmenn ráku mig út með látum. Ég fór að gráta sem er eitthvað sem ég geri ekki oft,“ segir Asikainen sem ætlar að leggja fram kæru á morgun. 

Lögreglan hefur þegar hafið rannsókn á atvikinu á McDonalds og að sögn fjölmiðlafulltrúa keðjunnar í Noregi, Kathrine Moe, að ef rétt reynist þá séu viðbrögð starfsfólksins röng og að sjálfsögðu fylgi McDonalds landslögum. 

<a href="http://www.nrk.no/ostfold/_-mcdonalds-kastet-oss-ut-fordi-vi-hadde-forerhund-1.12491182" target="_blank">Frétt NRK</a>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert