Bíða afsökunarbeiðni frá Norður-Kóreu

Suður-kóreskir hermenn við hlutlausa svæðið við landamærin að Norður-Kóreu.
Suður-kóreskir hermenn við hlutlausa svæðið við landamærin að Norður-Kóreu. AFP

Park Geun-hye, forsætisráðherra Suður-Kóreu, segir að hún bíði eftir afsökunarbeiðni frá fulltrúum Norður-Kóreu vegna ögrana undanfarið. Viðræður sem eiga að draga úr spennu á milli ríkjanna hafa haldið áfram í dag, þriðja daginn í röð.

„Þetta er spurning um þjóðaröryggi og öryggi þjóðar okkar. Þetta er ekki mál sem við getum bakkað með jafnvel þó að Norður-Kórea geri sem mest í að ögra og ógni öryggi eins og hún hefur gert í gegnum tíðina,“ segir Park.

Spennustigið á milli ríkjanna hefur verið hátt eftir að tveir suður-kóreskir hermenn særðust illa af völdum jarðsprengju á hlutalausa svæðinu á milli landanna. Þá skaut stórskotalið norðanmanna á hátalara sunnanmegin sem hafa útvarpað áróðri yfir landamærin. Fulltrúar Norður-Kóreu hafa krafist þess að hátalararnir verði teknir niður.

Park þvertók hins vegar fyrir það í dag nema að norðanmenn myndu biðjast afsökunar á framferði sínu undanfarið, þar á meðal jarðsprengjunni sem særði hermennina. Norður-kóresk stjórnvöld hafa neitað því að hafa komið jarðsprengjunni fyrir.

Frétt CNN af viðræðum Norður- og Suður-Kóreu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert