„Himnaríkið Evrópa“

Sýrlenskir flóttamenn bíða þess að komast um borð í ferju …
Sýrlenskir flóttamenn bíða þess að komast um borð í ferju til þess að komast til Grikklands. Flestir flóttamenn reyna að komast til Þýskalands. AFP

Þúsundir flóttamanna hafa síðustu misseri komið til Þýskalands í leit að betra lífi. Talið er að flóttamenn í Þýskalandi verði 800.000 í árslok og flestir þeirra koma við í miðstöð hælisleitanda í Berlín. Þeirra á meðal er hinn 19 ára gamli Thaeer al Mazhore. Hann kemur frá Mosul í Írak og flúði hann heimkynni sín eftir að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams komust þar til valda.

Skæruliðar samtakanna drápu föður hans og í kjölfarið flúði Thaeer. Hann var heilan mánuð að komast til Þýskalands en hann ferðaðist í gegnum Suður-Evrópu. „Ég myndi vilja koma fjölskyldu minni hingað og lifa í friði,“ sagði hann í samtali við Sky News. Annar maður sem rætt var við heitir Ali. Ferðalag hans til Þýskalands er sérstakt að því leyti að hann er í hjólastól. Ali varð fyrir sprengjuárás í heimalandi sínu Sýrlandi og lamaðist fyrir neðan mitti.

Framkvæmdarstjóri mannréttindasamtaka sem starfa í Sýrlandi, Zadoun al Zoubi, sagði í samtali við Sky News að það væri „sársaukafullt“ að sjá svona marga samlanda hans bíða eftir hæli í Evrópu.

„Ég veit ekki hvernig við eigum að byggja upp landið ef allir vilja komast til himnaríkisins í Evrópu,“ sagði al Zoubi.

Hann sagði að allir flóttamennirnir hafi gengi í gegnum helvíti til þess að komast til Evrópu. En ekki voru allir það heppnir að komast alla leið. „Margir voru bara skildir eftir í sjónum, étnir af hákörlum og steinum hafsins. En nú eru aðrir hér, mjög glaðir. Þeir eru í himnaríkinu Evrópu. Þeir vita ekki hvað bíður þeirra. Þeir gætu þurft að þjást mikið í Evrópu líka. En þau eru loksins komin hingað eftir að hafa gengið í marga daga, sumir í tíu daga. Ég veit um marga sem einfaldlega dóu á leiðinni hingað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert