Myndaði börn í sturtuklefa

Maðurinn kom földum myndavélum fyrir í skólanum þar sem hann …
Maðurinn kom földum myndavélum fyrir í skólanum þar sem hann kenndi. Af Wikipedia

Fyrrverandi kennari við einkaskóla í Bristol í Bretlandi hefur nú viðurkennt að hafa notað faldar myndavélar til þess að taka óviðeigandi myndir af nemendum sínum. Hinn 53 ára gamli Jonathan Thomson-Glover var dæmdur í þriggja ára og níu mánaða fangelsi en hann játaði að hafa notað földu myndavélarnar 36 sinnum, bæði í skólanum og á heimili í Cornwall. Thomson-Glover notaði myndavélarnar í sextán ár.

Sky News segir frá þessu.

Dómarinn í málinu lýsti brotum Thomson-Glover sem „ruddalegu trúnaðarbroti“ en tók eftirsjá Thomson-Glover gilda. Bætti dómarinn því við að kennarinn væri góður maður sem léti djöfla sína stjórna honum.

„Þú berð ábyrgð á þinni eigin ógæfu og það er erfitt að vorkenna þér. Fangelsi verður þér erfitt,“ sagði dómarinn jafnframt.

Thomson-Glover var handtekinn eftir að lögreglu barst ábending um IP tölu sem notuð var til þess að niðurhala óviðeigandi myndum af börnum. Í kjölfarið greindi Thomson-glover lögreglu frá því að hann hafi sett upp myndavélar á tíu stöðum í skólanum á meðan börnin voru í fríi. Hann notaði einnig myndavél sem falin var í tösku með gati. Thomson-Glover gekk síðan um með töskuna í sturtuklefa skólans og tók myndir.

Þegar lögregla spurði hann hverju hann hafi verið að leita að með myndatökunum sagði Thomson-Glover að hann hafi aðallega verið að mynda unglingsdrengi og að hann hafi verið með áráttu fyrir þeim sem hófst á internetinu.

Lögregla fann rúmlega 300 spólur og 2.500 klukkustundir af upptökum af börnum á heimili Thomson-Glover. Rúmlega 130 nemendur sáust á upptökunum.

Að sögn saksóknara í málinu báru foreldrar og nemendur í skólanum mikla virðingu fyrir Thomson-Glover og var litið á hann sem „fullkominn fagmann“.

Verjandi hans sagði kviðdómnum að Thomson-Glover sæi eftir gjörðum sínum og að hann vildi biðjast opinberlega afsökunar. Hann sagði jafnframt að skjólstæðingur hans gerði ekki ráð fyrir að honum yrði fyrirgefið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert