Milljón þarf að yfirgefa heimili sín

Ein milljón íbúa Chile hefur verið gert að yfirgefa heimili sín vegna flóðbylgjuviðvörunar í kjölfar jarðskjálfta sem mældist 8,3 stig. Að minnsta kosti fimm fórust í skjálftanum. Óttast er að flóðbylgjur geti náð allt til Japans.

Skjálftinn fannst víða og vögguðu hús allt til Buenos Aires í Argentínu. Í Chile þusti fólk út úr húsum sínum skelfingu lostið.

Þetta er sjötti stærsti skjálfti sem hefur riðið yfir Chile og sá sterkasti í heiminum það sem af er ári, segir aðstoðarinnanríkisráðherra landsins, Mahmoud Aleuy.

Aleuy segir að 245 þúsund fjölskyldur séu án rafmagns en eyðileggingin blasir víða við.

Choapa hérað, sem er næst upptökum skjálftans hefur verið lýst sem hamfarasvæði og sett undir herlög.

Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku jarðskjálftamiðstöðinni (USGS) voru upptök skjálftans 228 km norður af Santiago, borg með 6,6 milljónir íbúa.

Íbúi í Santiago, Jeannette Matte, lýsir skjálftanum sem léttvægum í upphafi en síðan hafi hann magnast jafnt og þétt.

„Við vorum á tólftu hæð og vorum mjög hrædd þar sem hann ætlaði aldrei að hætta,“ segir hún.

Innanríkisráðherra Chile, Jorge Burgo, segir að íbúar í strandbæjum hafi verið gert að yfirgefa heimili sín og ekkert skólastarf yrði meðfram strönd landsins í dag. Óttast sé að fleiri skjálftar muni fylgja í kjölfarið og því verði rýmingin áfram í gildi.

Flóðbylgjuviðvörun var gefin út bæði fyrir alla strandlengju Chile og Perú.

Ef þið eruð í Chile eða þekkið einhvern þar endilega hafið samband við okkur á mbl.is á netfangið netfrett@mbl.is.

Öflugur jarðskjálfti í Chile

AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert