Reynir aftur við Everest

AFP

Japanskur fjallgöngumaður, sem er aðeins með einn fingur, ætlar að gera aðra tilraun til þess að komast á topp Everest á næstu dögum en honum mistókst að komast á toppinn um helgina.

Nobukazu Kuriki, sem missti níu fingur þegar hann kól illa í leiðangri á Everest árið 2012, er sá eini sem er að reyna að komast á topp Everest um þessar mundir. Enginn hefur farið á toppinn í ár en 18 létust í grunnbúðum fjallsins þegar jarðskjálftar skóku Nepal í vor.

Hundruð fjallgöngumanna hættu við leiðangra á Everest eftir jarðskjálftann í apríl. Þeirra á meðal tveir Íslendingar, Vilborg Anna Gissurardóttir og Ingólfur Axelsson. Er þetta annað árið í röð sem enginn hefur náð að standa á brún hæsta fjalls heims að vori til. Árið 2014 voru það snjóflóð sem komu í veg fyrir göngu á Everest.

Kuriki, sem er 33 ára að aldri, er að reyna við Everest í fimmta skiptið. Snemma á sunnudagsmorgun varð hann að játa sig sigraðan þar sem hann óttaðist að ef hann reyndi við efsta hlutann þá yrði það hans síðasta.

Hann er í grunnbúðum og verður þar í nokkra daga en ætlar að reyna aftur að fara á toppinn í byrjun október, segir Tikaram Gurung, framkvæmdastjóri Bochi-Bochi Trek, sem annast leiðangur Kurikis. Gurung segir líðan Kurikis góða og hann hafi ekki lent í teljandi vandræðum í fjallgöngunni.

Kuriki verður einn á ferð í annarri tilraun en sex voru með honum í fyrri tilrauninni í síðustu viku að búðum tvö sem eru í 6400 metra hæð. Að sögn Gurung verður Kuriki ekki með súrefni í fjallgöngunni. Mjög hættulegt er að klífa Everest nú vegna eftirskjálfta sem hafa komið snjóflóðum af stað. Eins reyna flestir að klífa Everest á vorin fremur en haustin því mun hvassara er á þessum árstíma og kaldara. 

Kuriki segir að hann hafi farið of hægt í síðasta leggnum á laugardag og hann hafi hreinlega klárað alla orkuna við að krafla sig áfram í miklum snjó. Hann hafi gert sér grein fyrir því að ef hann héldi svona áfram þá yrði það hans síðasta. Því snéri hann við og ákvað að hvíla í nokkra daga.

Nobukazu Kuriki hefur reynt við Everest fimm sinnum
Nobukazu Kuriki hefur reynt við Everest fimm sinnum AFP
Nobokazu Kuriki með leyfið í ágúst sl.
Nobokazu Kuriki með leyfið í ágúst sl. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert