Aðgerð Sophia að hefjast

Frekari aðgerðir til þess að stöðva för báta smyglara með flóttafólk yfir Miðjarðarhafið eru að hefjast á vegum Evrópusambandsins. Aðgerðin nefnist Sophia og er nefnd eftir barni sem fæddist í björgunarskipi fyrir utan strendur Líbíu í ágúst.

Samkvæmt ákvæðum aðgerðarinnar mega áhafnir herskipa fara um borð í flóttabáta, leita og leggja halda á báta sem grunur er um að séu notaði fyrir smygl á fólki. Hingað til hefur eftirlit ESB einkum beinst að eftirliti og björgun, líkt og varðskip og flugvél Landhelgisgæslunnar hafa tekið þátt í á vegum Frontex.

Á vef BBC kemur fram að yfir 130 þúsund flótta- og förufólk hafi komið til Evrópu frá norðurströnd Afríku. Yfir 2700 hafa drukknað á leiðinni. 

Í dag munu þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og François Hollande, forseti Frakklands, sameiginlega ávart Evrópuþingið í Strassborg og er þess vænst að þau muni ræða málefni flóttafólks. Afar sjaldgæft er að leiðtogar ríkjanna ávarpi saman Evrópuþingið en það hefur aðeins einu sinni gerst, árið 1989 þegar François Mitterand, forseti Frakklands, og Helmut Kohl, kansalari Þýskalands, gerðu það.

BBC fer yfir málið í umfjöllun sinni í dag. Þar kemur fram að reglur varðandi slíkt eftirlit feli í sér að herskipin verði að vera á opnu hafi, það er þau mega ekki koma nær en sem nemur 12 sjómílum frá strönd Líbíu. Ekki liggur heldur fyrir hvernig herskipin fimm sem munu taka þátt eiga að hafa áhrif á ferðalög fólks. Því suma daga leggja um 20 slík skip af stað frá strönd Líbíu. 

Vonir standa til þess að herskip ríkja ESB fái heimild til þess að komast nær strönd Líbíu en það verður ekki nema með leyfi frá stjórnvöldum í Líbíu eða öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Þrátt fyrir að hættulegasta leiðin sé frá Líbíu til Ítalíu þá er önnur leið sem sækir sífellt i sig veðrið. Það er frá Tyrklandi til Grikklands og í sumar hefur hún verið mjög áberandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert