Harvard tapaði fyrir föngum í kappræðum

Austin Hall, ein af byggingum Harvard Law Scool.
Austin Hall, ein af byggingum Harvard Law Scool. Wikipedia/Daderot

Það vakti athygli í síðasta mánuði þegar ræðulið Harvard-háskóla tapaði kappræðum. Liðið var nýlega búið að verða meistarar í faginu og ætti því að vera fær í flestan sjó. En þrátt fyrir það tók hópur fanga í New York-ríki sig til og vann ræðukeppni gegn liðinu frá Harvard. 

Kappræðurnar fóru fram í öryggisfangelsi í New York-ríki. Fangarnir sem eru þar eiga möguleika á að fá kennslu í ýmsum fögum frá Bard-háskóla og var stofnað ræðulið með föngum úr þeim fangelsum í New York þar sem kennslan fer fram. Liðið hefur sigrað ýmis önnur lið, m.a. frá bandaríska hernum og notið mikilla vinsælda. Í síðasta mánuði buðu þeir ræðuliði Harvard til kappræðna og báru sigur úr býtum.

Þrír dómarar komust að þeirri niðurstöðu að lið fanganna hefði verið með sterk rök sem liðsmenn Harvard gerðu sér ekki grein fyrir og lýstu fangarnir yfir sigri.

Fangarnir voru beðnir um að færa rök fyrir því að almenningsskólum ætti að vera leyft að neita nemendum um skólavist sem ekki væru með landvistaleyfi.

Einn dómaranna, Mary Nugent, sagði í samtali við The Wall Street Journal að fangarnir hefðu bent á að skólar sem sinntu börnum án landvistaleyfis stæðu sig oft verr en aðrir skólar. Einnig bentu þeir á að ef almenningsskólarnir gætu ekki tekið á móti þeim börnum myndu einkaskólar og góðgerðarsamtök hugsanlega ganga á milli og bjóða nemendunum upp á betri menntun. Nugent sagði jafnframt að ræðulið Harvard hefði ekki náð að svara öllum rökum fanganna.

Liðið frá Harvard tók þó vel í ósigurinn og sagðist á Facebook sjaldan hafa verið eins stolt yfir því að tapa kappræðum.

Kennsla Bard-háskóla í fangelsinu hefur fengið mikið lof en minna en 2% fanga sem fá kennslu á meðan þeir eru í fangelsinu hafa snúið til baka þremur árum eftir að þeim er sleppt.

Kennslan er greidd af sjálfstæðum styrktaraðilum og bjóða þeir upp á rúmlega 60 áfanga á hverri önn í sex fangelsum í New York.

Carlos Polanco, er 31 árs og frá Queens. Hann er í ræðuliðinu og meðal þeirra 15% fanga í fangelsi í Napanoch sem hafa nýtt sér kennsluna frá Bard-háskólanum.  

„Við höfum fengið tækifæri,“ sagði Polanco en hann er í fangelsi vegna manndráps. „Þau fá okkur til þess að trúa á okkur sjálfa.“

Grein The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert