Loftárásir úr 1.500 km fjarlægð

Rússnesk stjórnvöld segja að herskip í Kaspíahafi hafi gert flugskeytaárásir á skotmörk hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í Sýrlandi. Herskipin eru í um 1.500 km fjarlægð frá skotmörkunum. 

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, segir að fjögur herskip hafi skotið 26 flugskeytum á ellefu skotmörk og grandað þeim. Hann segir ennfremur að almennir borgarar hafi ekki fallið í árásunum. 

Þetta kemur fram á vef BBC.

Rússar, sem eru styðja við bakið á Bashar al-Assad Sýrlandsforseta, hófu loftárásir sínar 30. september. Þeir segjast beina spjótum sínum gegn öllum hryðjuverkamönnum. Hins vegar er ljóst að saklausir borgarar og uppreinsarhópar sem njóta stuðnings Vesturveldanna hafa fallið í einhverjum árásum. 

Yfirvöld í Rússlandi neita því að þeir hafi aðallega gert árásir á skotmörk sem tengjast liðsmönnum Ríkis íslams ekki á nokkurn hátt. 

Sýrlenski stjórnarherinn hefur sótt fram á svæðum þar sem hann hefur notið stuðnings Rússa úr lofti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert