Myndaði eiginmanninn að áreita húshjálpina

Á myndbandinu má sjá eiginmanninn káfa á húshjálpinni.
Á myndbandinu má sjá eiginmanninn káfa á húshjálpinni. Skjáskot af Youtube

Konu frá Sádi-Arabíu sem tók upp myndband sem sýnir eiginmann hennar áreita húshjálp hefur verið hótað fangelsisvist en hún birti myndbandið á netinu.

Konan notaði farsíma sinn til þess að mynda eiginmann sinn á laun. Á myndbandinu má sjá manninn reyna að káfa á og kyssa húshjálp heimilisins í eldhúsinu.

Maðurinn klæðist hefðbundnum hvítum kufli og reynir ágengt að kyssa konuna sem nær að ýta honum frá sér.

Eiginkonan setti myndbandið inn á Youtube. Hún sagði það minnstu mögulegu refsinguna fyrir það sem hann hefði gert.

Fjölmargir hafa lýst yfir stuðningi við eiginkonuna á netinu. Lögfræðingar í Sádi-Arabíu hafa hinsvegar sagt að hún kunni að verða fangelsuð.

„Hún sér fram á eitt ár í fangelsi eða sekt upp á 500.000 ríala (tæpar sautján milljónir króna) fyrir að níðast á eiginmanni sínum og brjóta upplýsingalög,“ sagði lögfræðingurinn Majid Quaroob í samtali við dagblað í Sádi Arabíu.

Hann sagði jafnframt að hörð viðurlög væru við því að nota myndavél á farsíma eða annan búnað til þess að mynda aðra og níðast á þeim.

Þúsundir hafa lýst yfir stuðningi við eiginkonuna á Twitter og mótmælt því að hún gæti mögulega farið í fangelsi.

Frétt The Telegraph. 

Myndbandið má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert