Þjóðarsorg í Tyrklandi

AFP

Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Tyrklandi eftir að 95 létust í sprengjuárás í höfuðborginni Ankara í gær. Þetta er blóðugasta árás af þessum toga í sögu Tyrklands. 245 særðust í árásinni, þar af 48 alvarlega.

Tyrknesk yfirvöld hafa kallað árásirnar hryðjuverk og neita því að þau beri ábyrgð á ofbeldinu. Forsætisráðherra landsins Ahmet Davutoglu greindi frá því í dag að sönnunargögn bendi til þess að um tvær sjálfsmorðssprengingar hafi verið að ræða. Aðeins eru þrjár vikur til þingkosninga í landinu.

Sprengjurnar sprungu nálægt aðallestarstöð borgarinnar en fólk safnaðist þar saman til að taka þátt í friðarsamkomu sem skipulögð var af vinstrisinnuðum hópum. Hóparnir hafa krafist þess að ofbeldinu á milli PKK, upp­reisn­ar­hóp­i tyrk­neskra Kúrda og tyrkneskra stjórnvalda myndi ljúka.

Árásirnar voru framdar stuttu eftir klukkan tíu í gærmorgun að staðartíma. Myndbönd sem tekin voru af fólki á vettvangi sýna hóp ungs fólks haldast í hendur og syngja aðeins augnablikum áður en fyrsta sprengjan sprakk.

Engin hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en Davutoglu telur að Ríki íslams eða uppreisnarhópar Kúrda beri ábyrgð. Sérfræðingar segja að árásin í gær hafi verið svipuð og sú sem framin var í Suruc í Suður-Tyrklandi í júlí. Ríki íslams lýsti yfir ábyrgð á henni en þar létust 30 manns.

Frétt BBC.

AFP
Ofbeldinu í Ankara var mótmælt í fjömörgum borgum. Hér er …
Ofbeldinu í Ankara var mótmælt í fjömörgum borgum. Hér er mótmælt í Bordeaux í Frakklandi. AFP
Maður heldur grátandi konu á vettvangi árásarinnar.
Maður heldur grátandi konu á vettvangi árásarinnar. AFP
Friðarsamkoman var að byrja þegar sprengjurnar sprungu.
Friðarsamkoman var að byrja þegar sprengjurnar sprungu. AFP
Hlúð að fórnarlambi.
Hlúð að fórnarlambi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert