Stakk lögreglumann og var skotinn til bana

Arabi stakk ísraelskan lögreglumann við hliðið inn í gamla borgarhlutann í Jerúsalem í morgun. Lögreglumaðurinn var í varnarvesti og slapp ómeiddur en árásarmaðurinn var skotinn til bana af lögreglu.

Lögreglan segir að árásarmaðurinn sé arabi án þess að útskýra það nánar hvort hann er Palestínumaður eða ísraelskur arabi. Á annan tug svipaðra árása sem beint er gegn Ísraelum hafa verið gerðar frá því 3. október er Palestínumaður myrti tvo Ísraela í gamla borgarhlutanum í Jerúsalem. 

Í hefndarskyni stakk sautján ára gyðingur tvo Palestínumenn og tvo ísraelska araba á föstudag í borginni Dimona. 

Til óeirða hefur komið í austurhluta Jerúsalem og á Vesturbakkanum og er óttast að það sé að sjóða upp úr enn einu sinni á milli Ísraela og Palestínumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert