Vildi hætta í trúarsöfnuðinum

AFP

Ungur Bandaríkjamaður, sem var barinn til dauða í kirkju í Bandaríkjunum á dögunum af foreldrum sínum og öðrum safnaðarmeðlimum, vildi segja skilið við söfnuðinn. Þetta kemur fram í frétt AFP. Maðurinn, Lucas Leonard, var 19 ára þegar hann lést. Barsmíðarnar áttu sér stað seint á sunnudaginn en hann lést af sárum sínum daginn eftir.

Sautján ára bróðir mannsins, Christopher, var einnig barinn klukkutímum saman og liggur á sjúkrahúsi með alvarlega áverka. Upplýst var í dag að maðurinn hefði viljað yfirgefa kirkjuna, Word of Life Christian Church, sem talið er að hafi leitt til þess að hann og bróðir hans voru barðir til óbóta. Málið er í rannsókn og mörgum spurningum enn ósvarað segir í fréttinni.

Faðir bræðranna hefur haldið því fram að eldri bróðirinn hafi verið barnaníðingur en haft er eftir talsmanni lögreglunnar að engin gögn hafi verið lögð fram því til stuðnings. Foreldrar bræðranna, Bruce og Deborah Leonard, hafa verið ákærð fyrir manndráp. Þau áttu að koma fyrir rétt í dag en því hefur verið frestað um viku.

Fjórir aðrir í söfnuðinum hafa verið ákærðir og þar á meðal hálfsystir bræðranna. Kirkjan var stofnuð árið 1980 og eru um 40 manns meðlimir í henni.

Frétt mbl.is: Barinn til bana á safnaðarfundi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert