Segir Breivik sinn besta vin

Victoria heldur uppi bréfi frá Breivik.
Victoria heldur uppi bréfi frá Breivik. AFP

Hún skrifar honum í hverri viku og lofar að bíða hans. Ástarsagan væri ofurkunnuleg ef ekki væri fyrir það að ástin hennar sem hún kallar einfaldlega „Anders“ myrti 77 manns með köldu blóði árið 2011.

Hjarta Victoriu tilheyrir hryðjuverkamanninum og fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik sem situr nú af sér 21 árs fangelsisdóm fyrir sprengjutilræði í höfuðborg Ósló og fjöldamorð á ungliðum verkamannaflokksins í Útey.

Líkt og margir aðrir frægir morðingjar á Breivik sinn skerf af aðdáendum sem í sumum tilvikum laðast að honum kynferðislega. Í slíkum tilvikum á aðdáunin sér nafn: hybristophila.

„Ég myndi í alvöru ekki vilja lifa án hans,“ segir „Victoria“ í samtali við AFP en af augljósum ástæðum vill hún ekki notast við sitt rétta nafn. Victoria er sænsk kona á þrítugsaldri. Blaðamaður AFP lýsir henni sem fjarlægri og kuldalegri þar sem hún hunsar heitan kaffibollann sinn í hótelandyri í Stokkhólmi. Hann segir rödd hennar hinsvegar bresta þegar hún talar um „elsku Anders“ sinn.

Victoria, sem er frá litlum bæ í Svíþjóð, gerir allt sem hún getur til að fá norsk fangelsisyfirvöld til að slaka á þeim aðstæðum sem Breivik býr við en hann hefur eytt síðustu fjórum árum í einangrun.

Glæpir Breivik eru flestum kunnugir en hann myrti 77 manns  22. júlí 2011 þegar hann sprengdi sprengju nálægt höfuðstöðvum ríkisstjórnarinnar í Ósló og hóf síðan skotárás í sumarbúðum ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins á Útey. Breivik var dæmdur í 21 árs fangelsi en fangelsisvistin gæti verið framlengd svo lengi sem talið sé að samfélaginu stafi ógn af honum.

„Ég ann honum enn meir núna þegar hann er í svo viðkvæmri aðstöðu,“ segir Victoria sem líkir einangrun Breivik við pyntingar. Victoria kveðst skrifa honum reglulega til að létta honum vistina og hingað til hefur hún sent honum meira en 150 bréf auk lítilla gjafa, svo sem bláa bindisins sem hann bar stundum á meðan á réttarhöldunum stóð.

Hún hefur fengið tvö bréf frá honum á móti, sem blaðamaður AFP fékk að sjá og segir hún að starfsfólk fangelsisins sem sér um að ritskoða póstinn hennar hafi komið í veg fyrir að önnur bréf frá honum berist til hennar.

Fékk bónorð frá 16 ára stúlku

Það er ekki auðvelt að skilgreina samband Victoriu við Breivik. Hún hefur aldrei hitt hann þar sem öllum beiðnum hennar um heimsóknir hefur verið hafnað.

Hún lýsir honum sem „gömlum vini“ sem og einskonar bróður en játar að henni þyki hann aðlaðandi og „rómantískur áhugi var til staðar í fyrstu, í það minnsta af minni hálfu“.

Hún segir þau hafa kynnst árið 2007 í gegnum tölvuleik á netinu. Hann hafi skorið á tengslin við hana tveimur árum seinna, líklega til að einbeita sér að því að skipuleggja árásirnar. Snemma árs 2012 hafi samband þeirra hinsvegar gengið í endurnýjun lífdaga þegar hún hafði samband við Breivik sem var þá orðinn hataðasti maður Noregs.

Vicotia er hinsvegar ekki sú eina sem keppir um hjarta fjöldamorðingjans. Breivik fær minnst 800 bréf á ári mörg þeirra frá kvenkyns aðdáendum. Í réttarhöldunum yfir honum árið 2012 var greint frá því að 16 ára stúlka hefði beðið hann um að giftast sér.

Hybristophilia er orð sem notað er af afbrotafræðingum, en ekki vísindamönnum, til að lýsa kynferðislegum áhuga á ofbeldisfullum morðingjum í fangelsi sem fá oft djörf ástarbréf eða kynþokkafullan nærklæðnað sendan frá aðdáendum sínum.

Fyrirbærið þekkist einnig sem „Bonnie og Clyde“-heilkennið og er hvorki nýtt né einskorðað við Noreg. Hinn austurríski Josef Fritzl, sem hélt dóttur sinni fanginni og nauðgaði henni ítrekað í 25 ár, sem og bandaríski morðinginn Charles Manson eiga sína eigin aðdáendaklúbba.

Rómantík með stóru R-i

Að sögn Sheila Isenberg, bandarísks rithöfundar sem tók viðtöl við 30 konur fyrir bókina „Konur sem elska menn sem drepa“ (e. Women Who Love Men Who Kill) hafa aðdáendur morðingja oftar en ekki orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

„Þetta er möguleiki fyrir konuna til að stjórna ferðinni, (maðurinnn er bak við lás og slá og hefur enga stjórn á neinu) þegar hún hefur áður verið misnotkuð af föður sínum eða öðrum mönnum,“ segir Isenberg við AFP.

„Þetta er líka rómantík með stóru R-i: Spennandi, æsandi, rússíbani sem aldrei endar. Það er ekkert dauflegt eða venjulegt við þessi sambönd.“

Engin vísindaleg sönnunargögn styðja þá kenningu að konurnar vilji bjarga morðingjunum og færa þá til betri vegar samkvæmt Amanda Vicary, lektor við sálfræðideild Wesleyan-háskóla í Bandaríkjunum.

„Sumar konur eiga það til að laðast að frægum mönnum – það er mögulegt að ástæðan fyrir því að sumar konur laðist að mönnum sem hafa gert hræðilega hluti hafi ekki svo mikið með gjörðir þeirra að gera heldur snúist um frægðina sem þessar gjörðir hafa fært þeim.“

Victoria segist hinsvegar ekki sækjast eftir frægð. Samband hennar við Breivik hefur nú þegar kostað hana samband sitt við systur sína sem sagði: „Þú ert dauð fyrir mér“ þegar hún komst að tengslum Victoriu við fjöldamorðingjan. Hún hefur einnig fjarlægst aðra vini sína.

Hún játar að hún deili hugmyndafræði og kynþáttahatri Breivik „í grófum dráttum“ en kveðst þó andsnúin ofbeldinu. Svo hvernig getur hún elskað mann sem skaut með köldu blóði tugi hræddra táninga, sem sumir hverjir grátbáðu hann um að þyrma lífi sínu.

„Ég býst við því að ég hafi þurft að aðskilja Anders og Breivik. Ég sé Anders sem gamlan vin minn og Breivik sem manneskjuna sem gerði alla þessa hluti.“

Hún neitar að gefast upp á honum þó að árin líði. „Ég sakna hans meira og meira með degi hverjum. Ég býst við að tilfinningar mínar séu orðnar örlítið sterkari en áður.“

Victoria heldur því fram að Breivik sé besti vinur hennar.
Victoria heldur því fram að Breivik sé besti vinur hennar. AFP
Anders Breivik myrti tugi ungmenna í Útey.
Anders Breivik myrti tugi ungmenna í Útey. AFP
Breivik ræðir við einn lögfræðinga sinna fyrir rétti árið 2012.
Breivik ræðir við einn lögfræðinga sinna fyrir rétti árið 2012. AFP
Tvær ungar konur syrgja á samkomu í Ósló, tveimur dögum …
Tvær ungar konur syrgja á samkomu í Ósló, tveimur dögum eftir árásirnar. AFP
Vicotia hefur sent Breivik yfir 150 bréf en aðeins fengið …
Vicotia hefur sent Breivik yfir 150 bréf en aðeins fengið tvö á móti. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert