Wikileaks hyggjast birta pósta Brennan

Wikileaks ætlar að birta pósta Brennan.
Wikileaks ætlar að birta pósta Brennan. AFP

Samtökin Wikileaks hafa komist yfir AOL tölvupósta John Brennan, æðsta yfirmanns bandarísku leyniþjónustunnar, og hyggjast birta þá innan skamms. Þetta tilkynntu samtökin á Twitter í dag.

Tölvuþrjótarnir sem brutust inn á aðgang Brennan kalla sig Crackas With Attitude. Þeir gortuðu af afrekinu á Twitter og birtu í kjölfarið skjáskot þar sem sjá mátti kennitölur, farsímanúmer og netföng. Samkvæmt Guardian virðast símanúmerin og netföngin ófölsuð.

Þrjótarnir segja að meðal gagna í tölvupóstinum hafi verið 47 síðna umsókn um öryggisaðgang. Bandarísk yfirvöld sögðu hins vegar í samtali við CNN að í póstinum hefði ekki verið að finna trúnaðargögn.

Fjöldi Twitter-aðganga tengdum CWA hefur verið lokað en einn er enn virkur undir notendanafninu @phphax. Einn tölvuþrjótur sem setti sig í samband við New York Post, sagðist vera framhaldsskólanemi, ekki múslimi en á móti utanríkismálastefnu Bandaríkjanna. Þá sagðist hann stuðningsmaður Palestínu.

 Frétt mbl.is: Brotist inn í tölvupóst Brennan?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert