Áætlað heimili flóttamanna brann til grunna

AFP

Hús sem átti að nota undir flóttamenn í Svíþjóð brann til grunna í dag. Að sögn lögreglu er mögulegt að um íkveikju hafi verið að ræða og er málið í rannsókn. Húsið stóð í útjaðri bæjarins Floda í suðvestur Svíþjóð. Enginn slasaðist í eldinum þar sem enginn var fluttur inn.

Lögreglan í Svíþjóð rannsakar nú fjölda mála þar sem talið er að kveikt hafi verið í húsum ætluðum fyrir flóttamenn. Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við eldsvoðann í morgun.

Búist er við því að fjöldi hælisleitenda í landinu nái upp í 190.000 fyrir árslok. Á fimmtudaginn varaði ríkisstjórnin við því að fljótlega yrði ekki pláss fyrir fleiri.

„Við erum í erfiðri stöðu og við treystum á það að hægt sé að opna ný heimili. Það er mjög erfitt þegar þau eyðileggjast í eldsvoðum,“ sagði talskona flóttamannastofnunnar Svíþjóðar, Johanna Uhr í samtali við fjölmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert