Hlaupið, ekki leggjast niður

Tímabundinn minnisvarði við Bataclan-tónleikahúsið. Á myndinni má m.a. sjá gítar …
Tímabundinn minnisvarði við Bataclan-tónleikahúsið. Á myndinni má m.a. sjá gítar og nótur við lagið Imagine. AFP

Fórnarlömb byssu- og sprengjuárása á borð við þá sem átti sér stað í Bataclan-tónlistarhúsinu í París á föstudag ættu að forða sér og fela á bak við steinsteypta veggi í stað þess að leggjast niður og þykjast látin.

Þetta kemur fram í tilmælum sem NaCTSO, breska hryðjuverkalögreglan, hefur gefið út í kjölfar árásanna í Frakklandi. Tilefnið er m.a. viðbrögð viðstaddra í Bataclan þegar árásarmenn létu til skarar skríða, en þó nokkrir sem komust lífs af hafa sagt frá því hvernig þeir köstuðu sér í gólfið og lágu kyrrir á meðan drápin stóðu yfir.

Breska lögreglan mælir hins vegar eindregið með því að í áþekkum aðstæðum reyni fólk að flýja ef það getur, hvetja aðra til að gera slíkt hið sama og skila eigur sínar eftir. Í þeim tilfellum þegar flóttaleiðir eru ekki greiðfærar ætti fólk að leita skjóls bakvið þykka gegnheila veggi, þar sem byssukúlur geti farið gegnum gler, við, múr og járn.

Þegar í skjól er komið mælist NaCTSO til þess að fólk hafi hljóð og taki hljóðið af símum sínum. Þá er æskilegt að læsa sig inni ef þess er kostur og hafa síðan samband við viðbragðsaðila. Þá þarf að gefa upplýsingar um staðsetningu, árásarmenn, mögulega gísla og látna eða slasaða.

Tilmælin ná einnig til fyrirtækja, sem eru hvött til þess að þjálfa starfsmenn í að tryggja bygginar og bregðast við árásum.

Í fyrra dreifði breska lögreglan bæklingum þar sem fólk var hvatt til að „hlaupa, fela sig og segja frá“ ef það lenti í skotárás.

Guardian sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert