„Ósigur! Hvaða ósigur?“

Ekki láta blekkjast því þrátt fyrir að Þjóðfylkingin, Front National, hafi ekki sigrað í neinu héraði í Frakklandi í kosningunum í gær þá nýtur flokkurinn stuðnings 28% kjósenda. Það þýðir að flokkurinn er einn stærsti flokkur landsins og allt bendir til þess að formaður flokksins, Marine Le Pen, nái góðum árangri í næstu forsetakosningum.

„Ósigur! Hvaða ósigur?“ Þetta voru viðbrögð margra í FN eftir seinni umferð héraðskosninganna í gær. Enda hefur flokkurinn aldrei fengið jafn mikinn stuðning og nú.

FN fékk 800 þúsund fleiri atkvæði nú heldur en fyrir viku síðan

Margir Frakkar trúðu því þegar þeir vöknuðu í morgun að FN hefði beðið ósigur í gær því í engu héraði náði flokkurinn þeim árangri að vera með mest fylgi.

Athugasemd - hér var áður sagt að enginn frambjóðandi hafi verið kjörinn - sem er að sjálfsögðu rangt líkt og fram kemur neðar í greininni þá eykst fylgi flokksins verulega. Það sem átt var við að flokkurinn hafi hvergi fengið mest fylgi. Blaðamaður biður afsökunar á því hversu klaufalega þetta var orðað.

Í fyrri umferðinni nutu frambjóðendur FN í sex af þrettán héruðum mestrar hylli meðal kjósenda. Í tveimur héruðum var fylgið yfir 40%, í Pas-de-Calais-Picardie, þar sem Marine Le Pen var í framboði og í Provence-Alpes-Côte-d’Azur, þar sem systurdóttir hennar, Marion Maréchal-Le Pen, var í framboði.

Í kosningunum í gær fékk flokkur Marine Le Pen 6,8 milljónir atkvæða og hefur aldrei fengið jafn mörg atkvæði í kosningum. Árið 2002 var fyrra metið sett í seinni umferð forsetakosninganna þegar, faðir Marine, Jean-Marie, komst áfram í seinni umferð forsetakosninganna. Alls greiddu 6,4 milljónir Le Pen atkvæði þá. Í fyrri umferðinni fyrir viku síðan fékk FN um sex milljónir atkvæða þannig að fylgið jókst á milli vikna.

Fer úr 9% í 28%

Til samanburðar fékk FN 9% atkvæða í seinni umferð héraðskosninganna árið 2010 en nú var hlutfallið 28%. Geri aðrir betur á milli kosninga.

Af þrettán kjördæmum þá var það aðeins í þremur héruðum, Ile-de-France, Bretagne og Korsíku, sem FN fékk ekki yfir 20% atkvæða í gær.

Marine Le Pen talaði því eðlilega ekki um ósigur í ræðu sinni í gærkvöldi. Heldur þvert á móti var hún full sjálfstrausti þegar hún ávarpaði flokksfélaga sína. „Ekkert fær okkur nú stöðvað“ og eins hvað fylgi flokksins hafi vaxið gríðarlega. Hún benti á að flokkur hennar verði helsti stjórnarandstöðuflokkurinn í flestum héraðsráðum eftir að hafa þrefaldað fjölda sæta sem flokkurinn fékk í kosningunum 2010.

Repúblikanar þurftu að reiða sig á atkvæði sósíalista

Marion Maréchal Le Pen, tekur í svipaðan streng en hún hafnaði í öðru sæti í PACA héraði en þar hafði frambjóðandi repúblikana, Christian Estrosi, betur en hann er borgarstjóri í Nice.

„Það eru ákveðnir sigrar sem gera lítið úr sigurvegurunum,“ sagði hún og benti á þá staðreynd að Estrosi hafi þurft að reiða sig á kjósendur sósíalista til að ná kjöri.

Það fer því ekki á milli mála að FN nýtur mikils stuðnings meðal Frakka og konur, ungt fólk, sérfræðingar, námsmenn, atvinnulausir, kaupsýslumenn og fyrrverandi stuðningsmenn Sósíalistaflokksins hafa snúið sér til FN með atkvæði sín. Ekki bara í þeirra helstu vígum í norðri og Provence heldur alls staðar á meginlandi Frakklands.

Ekki lengur flokkur fólks á jaðrinum

Hugmyndin um að Þjóðfylkingin sé samansafn rasista og gyðingahatara er einfaldlega ekki rétt lengur. Þrátt fyrir að Marine Le Pen hafi gjarna viljað verða héraðsstjóri Nord-Pas-de-Calais-Picardie , þó ekki væri nema til að sýna fram á að hún sé fær um að stjórnun á vegum hins opinbera þá er ljóst að hún vinnur leynt og ljóst að því að bjóða sig fram í forsetakosningunum 2017.

Ef hún fær 6,8 milljónir atkvæða eða meira í fyrri umferð forsetakosninganna er nánast fullvíst að hún mun komast áfram í seinni umferðina. Miðað við stöðuna í dag er það annað hvort forsetinn sjálfur, François Hollande eða fyrrverandi forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, sem þarf að sætta sig við að láta í minni pokann fyrir henni.

Það þykir ekki líklegt að hún verði kjörin forseti í seinni umferð forsetakosninganna, þó svo það sé alls ekki hægt að útiloka það, þá er ekki lengur hægt að líta á hana sem stjórnmálamann á jaðrinum. Flokkur hennar er kominn til að vera. Eins getur verið fróðlegt að sjá fylgi FN í þingkosningunum 2017.

Stærsti sigurinn ekki í kjörklefanum heldur annar staðar

Miðað við ræður formanna hinna tveggja stóru flokkanna, Les Répu­blicains og Sósíalistaflokksins, þá gera þeir sér fulla grein fyrir stöðunni og voru afar lágstemmdir í ræðum sínum að lokum kosningum í gær.

Bruno Cautres, stjórnmálafræðingur, segir að Marine Le Pen sé í raun sigurvegari kosninganna nú. Hann telur að hún sé alveg sátt við að hafa ekki unnið kosningarnar því niðurstaðan staðfestir allt sem hún hefur sagt varðandi samsæri hinna flokkanna gagnvart FN.

Stjórnmálafræðingurinn Gaël Brustier bendir á að sennilega sé stærsti sigur Le Pen ekki í kjörklefanum heldur að forseti Frakklands hafi í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París 13. nóvember tekið upp ýmis af hennar baráttumálum. Svo sem að láta loka öfgafullum moskum og svipta öfgamenn frönskum ríkisborgararétti. Það sýni og sanni að margar af hennar skoðunum eru ekki lengur álitnar öfgaskoðanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert