Wilders valinn stjórnmálamaður ársins

Wilders er eini maðurinn sem hefur unnið titilinn þrisvar sinnum.
Wilders er eini maðurinn sem hefur unnið titilinn þrisvar sinnum. AFP

Öfgamaðurinn Geert Wilders er stjórnmálamaður ársins í Hollandi, samkvæmt árlegri skoðanakönnun þáttarins Een Vandaag, sem sýndur er á ríkisstöðinni Netherlands 1. Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins, hlaut 25% 37.000 atkvæða.

„Hann hefur tilfinningu fyrir þeim áhyggjum sem margir Hollendingar deila varðandi hælisleitendur,“ sagði einn þeirra sem greiddu atkvæði í könnuninni, sem hefur verið gerð frá 2004.

Wilders er eini maðurinn sem hefur unnið titilinn þrisvar sinnum.

Yfirvöld í Hollandi hafa upplýst að um miðjan nóvember hafði metfjöldi hælisumsókna borist; alls 54.000. Metið var síðast slegið árið 1994, þegar ófríðurinn á Balkanskaga stóð yfir, en þá sóttu 52.000 um hæli.

„Það er frábært að vera kjörinn stjórnmálamaður ársins af almenningi. Það er mikill heiður,“ sagði Wilders í yfirlýsingu. Hann sagði titilinn hvatningu til að vinna af auknu kappi að hagsmunum Hollands og hollensku þjóðarinnar.

Samkvæmt skoðanakönnunum myndi Frelsisflokkur Wilders, sem er mjög á móti innflytjendum, hljóta 35 þingsæti af 150 í neðri deild þingsins ef gengið yrði til kosninga í dag. Næstu kosningar verða hins vegar ekki haldnar fyrr en 2017.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert