Auðugum veiðimönnum rænt í Írak

Meðal veiðimannanna voru meðlimir fjölskyldu emírsins í Katar.
Meðal veiðimannanna voru meðlimir fjölskyldu emírsins í Katar. AFP

Byssumenn námu að minnsta kosti 26 Katara á brott í suðurhluta Írak í dag, þar sem Katararnir voru við veiðar. Um er að ræða annað umfangsmikla mannránið á útlendingum í landinu á þremur mánuðum.

Í september sl. voru 18 Tyrkir numdir á brott í Bagdad, en bæði Tyrkland og Katar eiga í deilum við ýmsa hópa í Írak. Tyrkneska hópnum var sleppt ómeiddum.

Að sögn Faleh al-Zayadi, ríkisstjóra Muthanna, voru Kataranir í búðum sínum nærri Bassiyah þegar tugir byssumanna létu til skarar skríða. Í hóp Kataranna voru m.a. meðlimir fjölskyldu emírsins.

Ríkisstjórinn sagði að mannræningjarnir hefðu komið á 50 bifreiðum búnum vélbyssum. Tveir íraskir öryggisverðir voru meðal þeirra sem voru teknir en þeim var síðar sleppt.

Utanríkisráðuneyti Katar hefur sett sig í samband við stjórnvöld í Írak til að fá upplýsingar um mannránið og freista þess að fá fólkið laust sem fyrst. Hópurinn var með leyfi fyrir veiðunum frá íraska innanríkisráðuneytinu.

Efnaðir veiðimenn frá ríkjum við Persaflóa ferðast til Pakistan, Afganistan og Írak til veiða, en þar eru reglur um veiðar á ákveðnum dýrategundum ekki jafn strangar og heima fyrir.

Þeir mæta hins vegar ákveðnum fjandskap í Írak, m.a. vegna stefnu Persaflóaríkjanna varðandi borgarastyrjöldina í Sýrlandi og meinta aðkomu þeirra að uppgangi hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.

Katar hefur fjármagnað bardagamennina sem berjast gegn sveitum Bashar al-Assad Sýrlandsforseta.

Frétt mbl.is: Umfangsmikið mannrán í eyðimörkinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert