Hefðu aldrei átt að taka upp evruna

Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands.
Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands. AFP

Finnar hefðu aldrei átt að gerast aðilar að evrusvæðinu. Þetta er haft eftir Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands og leiðtoga Finnaflokksins, í frétt Bloomberg en þar segir að Finnar glími við mikinn efnahagssamdrátt sem dregið hafi verulega úr samkeppnishæfni finnsks efnahagslífs. Fyrir vikið hafi reglulega skapast umræður um peningastefnu landsins.

Haft er eftir Soini að með sjálfstæðan gjaldmiðil hefðu Finnar getað aukið samkeppnishæfni efnahagslífsins með gengisfellingu. Þar sem sá möguleiki er ekki fyrir hendi hefur verið reiknað út fyrir ríkisstjórn Finnlands að lækka þurfi launakostnað um allt að 15% til þess að bæta samkeppnishæfni landsins gagnvart helstu viðskiptaþjóðum Finna, Svíum og Þjóðverjum. Samdráttur hefur verið í finnsku efnahagslífi undanfarin þrjú ár og reiknað er með áframhaldandi samdrætti á næsta ári en þá er búist við að minnstur hagvöxtur verði í Finnlandi af evruríkjunum. Rúmlega helmingi minni hagvöxtur verður í Finnlandi en Grikklandi á næsta ári að mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Fram kemur í frétt Bloomberg að ummæli Soini falli á sama tíma og forveri hans á stóli utanríkisráðherra, Paavo Vayrynen, safni undirskriftum með það að markmiði að neyða ríkisstjórnina til þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um evruna. Skoðanakannanir hafa sýnt að fleiri Finnar vilji þrátt fyrir allt halda í evruna en þær hafa einnig bent til þess að fjölmargir Finnar telji að hagsmunum sínum væri betur borgið utan evrusvæðisins.

Haft er eftir Soini að umræða um málið eigi eftir að fara vaxandi en hann varar við því að þjóðaratkvæði um málið væri ekki lausn á yfirstandandi efnahagserfiðleikum Finnlands. Núverandi raunveruleiki væri sá að Finnar væru aðilar að evrusvæðinu. Ráðherrann gagnrýnir einnig Schengen-samstarfið og segir að það verði sjálfsagt ekki formlega lýst dautt en að því verði hins vegar að öllum líkindum ekki framfylgt áfram. Ef ekki tækist að koma böndum á flæði hælisleitenda í Grikklandi og öðrum ríkjum yrði það til þess að þjóðríkin tækju málin í eigin hendur.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert