Uppreisnarleiðtogi í Sýrlandi látinn

Zahran Alloush heldur ræðu í brúðkaupi eins hermanna Jaish al-Islam …
Zahran Alloush heldur ræðu í brúðkaupi eins hermanna Jaish al-Islam í júní á þessu ári. AFP

Zahran Alloush, leiðtogi uppreisnarhópsins Jaish al-Islam í Sýrlandi er sagður hafa verið drepinn austan við Damascus í dag.

AFP greinir frá andláti hans. Dauði hans er „einn markverðasti missir andspyrnuhreyfingarinnar,“ í uppreisn síðustu fimm ára í Sýrlandi, að sögn sérfræðingsins Charles Lister.

Eftirlitsstofnun mannréttinda í Sýrlandi (e. Syrian Observatory for Human Rights) segir Alloush og fimm aðra leiðtoga hafa látist í loftárás sem gerð var á fund þeirra í Austur-Ghouta. Dauði Alloush, sem var 44 ára, hefur verið staðfestur á Twitter af leiðtoga sýrlensku stjórnarandstöðunnar sem deildi skilaboðum um samkennd sína á Twitter. Ríkissjónvarpsstöð Sýrlands greindi einnig frá dauða Alloush en tók ekki fram hver hefði framkvæmd loftárásina.

Jaish al-Islam er sá uppreisnarhópur sem er mest áberandi í Austur-Ghouta og átti m.a. fulltrúa í nýlegum samningaviðræðum í Sádi Arabíu. Ríkisstjórn Sýrlands talar reglulega um hópinn sem hryðjuverkamenn.

Her ríkisins hafði nýlega tilkynnt um stóra aðgerð til að ná Austur-Ghouta aftur úr höndum uppreisnarmanna en hann hefur notið stuðnings rússneskra loftárása frá því í 30. september.

Jaish al-Islam var þekktur fyrir að hafa öfgafullar skoðanir og hafa stutt stofnun íslamsks ríkið en nýlega tók hann að færast nær hóflegri afstöðu. Hann dvaldi í minnst tvö ár í sýrlensku fangelsi þar til hann hlaut sakaruppgjöf í júní 2011.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert