Netflix stefnir á heimsyfirráð

Þessi skjámynd blasti við þegar Íslendingur keypti áskrift að þjónustu ...
Þessi skjámynd blasti við þegar Íslendingur keypti áskrift að þjónustu Netflix í gær. mbl.is

Efnisveitan Netflix býður nú þjónustu sína í 190 ríkjum heims en í gær var tilkynnt að 130 lönd hefðu bæst við þjónustunet fyrirtækisins. Netflix hóf starfsemi sem DVD-leiga árið 2007 og bauð viðskiptavinum sínum að fá diskana heimsenda í pósti, en hefur nú heldur betur vaxið fiskur um hrygg og framleiðir eigið verðlaunaefni.

Áskrifendur þjónustunnar, sem eru um 70 milljón talsins, greiða fast mánaðargjald fyrir ótakmarkað streymi, þ.e. áhorf.

„Í dag eruð þið að verða vitni að fæðingu nýrrar alþjóðlegrar net-sjónvarpsstöðvar,“ sagði Reed Hastings, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Netflix, í Las Vegas í gær. „Á meðan þið hafið hlýtt á mig tala hefur þjónusta Netflix verið virkjuð í næstum öllum ríkjum heims, nema Kína, þangað sem við vonumst til að ná í framtíðinni.“

Skiljanlega hefur Netflix mikinn áhuga á því að komast inn á hinn gríðarstóra Kína-markað en þarf áður að komast að samkomulagi við þarlend stjórnvöld, sem hafa verið ófeimin við að ritskoða allt efni sem þeim þykir óþægilegt. Hastings sagði að viðræðurnar myndu taka nokkurn tíma.

Kína er ekki eina land heimsins þar sem Netflix er ekki á boðstólnum en þjónustan er heldur ekki fáanleg á Krímskaga, í Norður-Kóreu og Sýrlandi. Það má rekja til takmarkana bandarískra stjórnvalda á starfsemi bandarískra fyrirtæka í viðkomandi ríkjum.

Enska er móðurmál Netflix en þjónustan hefur verið þýdd á 17 tungumál. Hastings sagði að frá þessum degi myndi fyrirtækið einbeita sér að því að hlusta á notendur sína og læra, og stefna að því að bæta við efni og tungumálum.

Eigin þáttagerð

Síðustu misseri hafa forsvarsmenn efnisveitunnar verið að færa út kvíarnar og hafið eigin þáttagerð til viðbótar við að streyma eldri sjónvarpsþáttum og kvikmyndum annarra framleiðslufyrirtækja. Meðal þess efnis sem komið hefur úr smiðju Netflix eru verðlaunaþáttaraðirnar House of Cards og Orange Is the New Black.

Aðgangur að efni er þó mismunandi milli ríkja vegna rétthafasamninga. Þannig eru þær sjónvarpsþáttaraðir sem enn eru í sýningu á íslenskum sjónvarpsstöðvum ekki í boði fyrir íslenska áskrifendur Netflix.

Hastings sagði stefnt að því að úrvalið yrði það sama alls staðar í heiminum, en sú þróun myndi taka nokkur ár. Hann sagði að enn ætti eftir að koma í ljós hvort fyrirtækið þyrfti að grípa til þess að ritskoða einhverja þætti eða kvikmyndir til að laga þá að menningarlegum viðmiðum í einhverjum löndum.

Nú þegar efnisveitan hefur teygt anga sína til næstum allra ríkja heims verður efnisframboðið helsta áhersluefnið. Fyrirtækið hyggst bjóða upp á 31 þáttaröð úr eigin smiðju árið 2016, á þriðja tug kvikmynda og heimildarmynda, auk 30 barnaþáttaraða.

Meðal þess sem forsvarsmenn Netflix, sem er bandarískt fyrirtæki, munu skoða er samvinna við framleiðendur í viðskiptalöndum sínum. „Við erum búin að kasta gömlu leikbókinni; allt er farið,“ hefur AFP eftir leikaranum Will Arnett, sem fer með aðalhlutverkið í væntanlegu þáttaröðinni Flaked. „Allt sem þú gerir er fáanlegt alls staðar í heiminum á sama tíma, þetta er ótrúlegt.“

Reed Hastings, framkvæmdastjóri Netflix, segir stefnt að því að efnisframboðið ...
Reed Hastings, framkvæmdastjóri Netflix, segir stefnt að því að efnisframboðið verði það sama alls staðar í heiminum. AFP
Leikarinn Will Arnett segir Netflix hafa gjörbreytt því hvernig fólk ...
Leikarinn Will Arnett segir Netflix hafa gjörbreytt því hvernig fólk nálgast efni. AFP
mbl.is

Frá Sýrlandi til Evrópu - Greinaflokkur

Íbúð í Torrieveja á Spáni
Falleg íbúð í Torrieveja á Spáni til leigu. Laus í júní uppl. Í síma 8932339 Íb...
HÚSAVIÐGERÐIR
Viðgerðir og viðhald fasteigna er okkar fag. Húsaklæðning ehf. hefur í áratugi ...
Bækur um ættfræði byggðasögu og ýmsan fróðleik til sölu
hef til sölu nokkur grundavallarrit ættfræðinnar ásamt ritum um atvinnu og byggð...
Glæsilegur dekurbíll !!
Grand Cherokee Overland 04, 8 cyl, 4.7l, 266 ha, ek. 150 þ. m. Í toppstandi, óry...
 
Jarðböðin
Tilboð - útboð
Skútustaðahreppur Jarðböðin í Mývatns...
Skipulagsmál
Tilkynningar
Rangárþing ytra Auglýsing um skipula...
Grunnskólakennarar
Grunn-/framhaldsskóla
Grunnskólakennarar í Þjór...
Hádegisfundur ses
Fundir - mannfagnaðir
ses.xd.is Samtök eldri sjálfstæði...