„Þetta er martröð“

Mynd af barni í Madeya.
Mynd af barni í Madeya.

Í bænum Madaya í Sýrlandi kostar nú 1 kíló af hrísgrjónum um 20 þúsund krónur. Íbúarnir svelta, róta eftir mat í ruslinu, borða gras og slátra köttum til að lifa af. „Þetta er martröð,“ segir læknir á svæðinu.

Bærinn hefur verið einangraður lengi og samtökin Læknar án landamæra fullyrða að í það minnsta 23 hafi soltið til dauða. Önnur samtök telja að enn fleiri hafi látist. Ekki er von á neyðaraðstoð fyrr en í fyrsta lagi á mánudag.

„Ég veit ekki hvaða gras þetta er sem við erum að borða,“ segir læknirinn Khaled. „Við sjóðum það, setjum salt á það og borðum.“

Madaya er um 40 kílómetra norðvestur af höfuðborg Sýrlands, Damaskus. Bærinn komst í fréttirnar í vikunni er fréttir tóku að berast af ömurlegum aðstæðum íbúanna.

Staðsetning Madaya gerir það að verkum að erfitt og nær ómögulegt er að koma þangað vistum. Bærinn er í skotlínu milli herja stjórnarinnar og uppreisnarmanna. Því hefur fólkið þar ekki fengið matvæli eða lyf lengi.

„Það er ekkert hér að borða,“ segir starfsmaður hjálparsamtaka við LA Times. „Ef þú sæir líkama minn myndirðu ekki trúa að ég væri enn á lífi.“

Sameinuðu þjóðirnar tilkynntu á fimmtudag að náðst hefði samkomulag við stríðandi fylkingar um að koma hjálpargögnum til bæjarins. Það verður þó ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir helgi.

Fyrir stríð var Madaya vinsæll ferðamannastaður. Hann hefur frá því í júlí verið á valdi sýrlenska hersins en hann er skammt frá landamærunum að Líbanon. Þá eru þar einnig hermenn Hezbollah sem hafa hingað til verið dyggir stuðningsmenn Bashar Assads forseta Sýrlands.

Áður en stríðið í Sýrlandi braut út árið 2011 bjuggu um 16 þúsund manns í Madaya. En þegar stríðið hófst streymdu þangað flóttamenn sem voru að flýja undan sprengjuregni. Á sama tíma hóf Hezbollah að flytja fólk með valdi til bæjarins til að auka þrýsting á uppreisnarmenn sem höfðu komið sér fyrir í nágrenninu. 

Nú er svo komið að nauðsynjavörur eru varla til í bænum og þær sem enn fást eru rándýrar. Íbúarnir reyna að halda lífi með því að skipta á bílum sínum og matvælum. 

Í vikunni fóru svo að berast fregnir frá svæðinu. Á myndböndum og myndum má sjá grindhoruð börn. Á þeim sáust börnin vera að borða marmelaði soðið í vatni. Ekki hefur verið staðfest að myndböndin sýni ástandið almennt en Rauði krossinn segir ljóst að gera verði ráð fyrir að ástandið sé mjög slæmt.

Einn starfsmaður Rauða krossins sem heimsótti svæðið í október segir að þá þegar hafi ástandið verið orðið slæmt. „Það var augljóst að þarna var hungur og fólkið vannært,“ segir hann. 

Hezbollah neitar að hungursneyð sé í bænum. Samtökin segja að um áróður sé að ræða af hálfu uppreisnarmanna í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert