Handtóku 68 liðsmenn Ríkis íslams

Tyrkneska lögreglan hefur handtekið 68 grunaða liðsmenn Ríkis íslams í víðtækum aðgerðum gegn samtökunum. Tíu manns létust í sjálfsvígsárás samtakanna í miðborg Istanbul í gær.

65 voru handteknir við húsleitir í gær í Ankara, Izmir, Kilis; Sanliurfa, Mersin og Adana, samkvæmt frétt Anatolia.

Alls voru 16 handteknir í Ankara en yfirvöld segja að þeir hafi verið að undirbúa stóra árás í höfuðborginni. 21 var handtekinn í Sanliurfa á landamærum Sýrlands og þeir voru einnig að undirbúa árás í Tyrklandi.

Þrír Rússar voru síðan handteknir í hafnarborginni Antalya í morgun en þeir eru allir félagar í Ríki íslams.

Í frétt AFP kemur fram að ekki komi fram í fréttum tyrkneskra fjölmiðla hvort handtökurnar tengist beint árásinni í Istanbul í gær en flestir þeirra sem létust þar voru þýskir ferðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert