Bloomberg íhugar forsetaframboð

Michael Bloomberg.
Michael Bloomberg. AFP

Milljarðamæringurinn og fyrrum borgarstjóri í New York Michael R. Bloomberg íhugar nú sjálfstætt forsetaframboð samkvæmt heimildum New York Times.

Í blaðinu er greint frá því að hann hafi beðið ráðgjafa sína um að leggja drög að kosningabaráttu. Ástæðan er sögð sú að hann er uggandi yfir velgengni Donalds Trumps í forvali Repúblikana og sömuleiðis telur hann Hillary Clinton hafa misstigið sig of oft í baráttu sinni við Bernie Sanders, sem nálgast Clinton í nýjustu skoðanakönnununum vestanhafs. 

Bloomberg hefur áður íhugað sjálfstætt forsetaframboð en hefur aldrei látið af því verða vegna þess að hann taldi líkurnar á sigri of litlar. Sviptingarnar sem eiga sér stað í hinum rótgrónu flokkum í Bandaríkjunum eru þó þess eðlis að hann er sagður telja líkurnar betri nú en nokkru sinni fyrr.

Auðæfi hans eru metin á 36,5 milljarða Bandaríkjadala og er hann sagður vera tilbúinn til þess að eyða heilum milljarði í kosningabaráttu sína. 

Heimildir New York Times herma að kosningabaráttan sem Bloomberg hafi í huga byggi á fjölda myndbanda af honum þar sem hann ætlar að kynna sig sem lausnarmiðaður „teknókrati“ og manni skapaði auðæfi sín upp á eigin spýtur. Þá ætlar hann líka að eyða miklum fjármunum í auglýsingaherferð til að kynna nafn sitt betur.

Frá árinu 1852 hafa allir forsetar Bandaríkjanna komið frá hinum svokölluðu hefðbundnu flokkum og telja margir því ólíklegt að hann muni sigra. 

Hann er upprunalega Demókrati en bauð sig fram fyrir Repúblikana í borgarstjórnarkosningunum í New York árið 2001 áður en hann sagði sig úr flokknum og bauð sig síðar fram sem óháður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert