Segja Grikki hafa vanrækt skyldur sínar

Flóttamenn koma til Aþenu í ferju frá grísku eyjunni Lesbos.
Flóttamenn koma til Aþenu í ferju frá grísku eyjunni Lesbos. AFP

Grísk stjórnvöld hafa „vanrækt skyldur sínar alvarlega“ þegar það kemur að gæslu og umsjón á ytri landamærum Schengen svæðisins. Þetta kemur fram í skýrslu framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins.

Í skýrslunni kemur fram að margir flóttamenn sem komu til landsins í nóvember hafi hvorki verið skráðir eða bakgrunnar þeirra athugaðir. Þá voru fingraför margra ekki tekin. Að öllum líkindum verður Grikkjum gefnir þrír mánuðir til að gera úrbætur. Ef það er ekki gert gæti Evrópusambandið láti önnur Schengen-ríki taka upp landamæraeftirlit á ný vegna fjölda flóttamanna á svæðinu.

Nokkur aðildarríki Evrópusambandsins, eins og Austurríki og Ungverjaland, hafa þegar sett upp tímabundið landamæraeftirlit til þess að minnka komu flóttamanna.

44.000 flóttamenn hafa komið til Grikklands á þessu ári.
44.000 flóttamenn hafa komið til Grikklands á þessu ári. AFP

Rúmlega 850.000 flóttamenn komu til Grikklands á síðasta ári. Þá hafa 44.000 komist til grísku eyjanna frá áramótum, þá aðallega til Lesbos, Samos og Chios.

Mikið álag er nú á grísk stjórnvöld um að taka betur á vandanum en flestir flóttamannanna fara frá Grikklandi til landa eins og Þýskalands og Svíþjóðar.

Varaforseti framkvæmdaráðsins, Valdis Dombrovskis sagði á blaðamannafundi í dag að niðurstaða skýrslunnar væri sú að Grikkir hefðu alvarlega vanrækt skyldur sínar innan Schengen samkomulagsins.

Í eftirliti Evrópusambandsins í Grikklandi í nóvember kom í ljós að Grikkir voru ekki að taka rétt á móti fólkinu og tóku ekki fingraför af öllum sem komu. Það er gert m.a. til þess að athuga hvort fólkið sé eftirlýst af Interpol og hvort að skilríki þeirra séu ófölsuð.

AFP

Önnur Schengen-ríki þurfa að samþykkja skýrsluna áður en hægt er að veita Grikkjum þriggja mánaða frestinn til að gera úrbætur á móttöku flóttamanna.

Samkvæmt frétt BBC er Evrópusambandið nú að skoða hvort hjálpa eigi Makedóníumönnum við að auka öryggi landamæra sinna við Grikkland.  Makedónía er hvorki meðlimur í Evrópusambandinu eða í Schengen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert