„Hvað er að gerast í Svíþjóð?“

Árásir grímuklæddra manna á hælisleitendur í Stokkhólmi um helgina hafa vakið heimsathygli og þykja í andstöðu við það sem hingað til hefur verið talið að einkenndi viðhorf Svía til innflytjenda. Á sama tíma er rætt um að senda tugi þúsunda hælisleitenda úr landi en í fyrra sóttu 163 þúsund manns um hæli í Svíþjóð. 

AFP fréttstofan fjallar ítarlega um málefni flóttafólks í Svíþjóð í dag. 

Aðbúnaður flóttafólks er víða slæmur í Svíþjóð og í Daily Mail í gær voru birtar myndir úr flóttamannabúðum í Västerås. Þar búa 600 manns við þröngan kost og eru starfsmennirnir aðeins tveir talsins. Lögreglan neitar að koma inn í búðirnar af ótta við árásir en samkvæmt fréttinni hefur tíu börnum verið nauðgað í búðunum. 

Ekki er langt síðan fimmtán ára gamall hælisleitandi stakk 22 ára gamla konu sem starfaði á heimili fyrir unga hælisleitendur til bana.

Um tvö hundruð tóku þátt í fundi nýnasista í Stokkhólmi …
Um tvö hundruð tóku þátt í fundi nýnasista í Stokkhólmi á laugardag. AFP

Tekist á um afstöðu til flóttafólks og innviði samfélagsins

Á milli 50 og 100 manns réðust á og börðu útlendinga í miðborg Stokkhólms á föstudagskvöldið. Sami hópur dreifði bréfum þar sem hvatt var til þess að götubörn frá Norður-Afríku fengju þá refsingu sem þau ættu skilið.

Það tók lögreglu ekki langan tíma að dreifa árásarmönnunum en mörgum brá í brún að sjá myndirnar af grímuklæddum mönnum berja á fólki. Á sama tíma eru Svíar að berjast við afstöðu sína til flóttamanna sem streyma til landsins.

Manngæska og vilji til að aðstoða flóttafólk er rótgróin í þjóðarsál Svía en á sama tíma benda aðrir á að brestir séu komnir í innviði landsins vegna fjölda þeirra en ekkert ríki ESB hefur tekið við jafn mörgum flóttamönnum miðað við höfðatölu.

„Hvað er að gerast í Svíþjóð,“ spyr leiðarahöfundur Expressen á sunnudag. Á sama tíma og fjölmörg mál tengd flótta- og förufólki birtast í fjölmiðlum. Svo sem íkveikjur á heimilum hælisleitenda og menningarmiðstöðvum þeim tengdum sem og trúardeilur. 

AFP

Löfven talinn bera mikla ábyrgð

Flestir fjölmiðlar, og skiptir þar engu hvar þeir standa í stjórnmálum, saka forsætisráðherra landsins, Stefan Löfven, um að bera mestu ábyrgðina með því að gera lítið úr þeim áskorunum sem Svíar standa frammi fyrir. Á sama tíma hefur fylgi flokks Löfven, Jafnaðarmannaflokksins, sjaldan eða aldrei mælst jafn lítið meðal kjósenda.

Leiðarahöfundur Svenska Dagbladet sagði í fyrra að þeir sem vogi sér að ræða tengsl á milli fjölda flóttamanna sem koma til landsins og möguleika á að taka á móti með með viðunandi hætti séu strax skipað í flokk með öfgahægri mönnum. 

Í leiðara 26. janúar sl. hvetur blaðið til þess að flótta- og förufólk sem fremji glæp í landinu verði vísað úr landi. Daginn áður var Alexandra Mezher stungin til bana á heimili fyrir unga hælisleitendur í Molndal, úthverfi Gautaborgar.

„Við hefðum aldrei trúað því að þetta gæti gerst í Svíþjóð. Við gerum ríkisstjórnina og forsætisráðherrann ábyrgan,“ segir frændi Mezher í viðtali við AFP fréttastofuna en fjölskyldan kemur frá Líbanon.

Löfven brást skjótt við og heimsótti Molndal en viðbrögð hans voru gagnrýnd. „Það er engin auðveld lausn,“ sagðiLöfven og svaraðiDagensNyheter honum strax: „Löfven hefur ekkert að segja.“

AFP

Nokkrum dögum síðar tilkynnti ríkisstjórnin að hún vildi auka skilvirki varðandi brottvísun þeirra hælisleitenda sem er synjað um hæli. Talið er að minnsta kosti 60 þúsund af þeim 163 þúsund sem sóttu um í fyrra verði synjað um hæli í Svíþjóð.

Á árunum 2014 og 2015 voru um 20% landsmanna af erlendum uppruna en alls tók Svíþjóð á móti 245 þúsund hælisleitendum á þessum árum.

Mikill húsnæðisvandi blasir við í Svíþjóð og hefur fasteignaverð hækkað gríðarlega. Á sama tíma eru laun kennara og hjúkrunarfólks svo lág að það er skortur á fólki í þessum atvinnugreinum. Af ríkjum OECD vex ójöfnuður hvergi jafn hratt og í Svíþjóð, samkvæmt AFP.

AFP fréttastofan ræddi við ellilífeyrisþega, Evu, sem býr í Boras, sama bæ og Alexandra Mezher bjó í. Hún segir að landið hafi breyst mikið. Áður hafi Svíþjóð verið rólegt land en nú séu ofbeldismál áberandi. 

Heimili fyrir unga hælisleitendur í Molndal
Heimili fyrir unga hælisleitendur í Molndal AFP

Fótboltabullur helsta uppspretta rasista

Sagnfræðingurinn Lars Tragardh segir í viðtali við AFP að vegna þess hversu uppteknir allir hafi verið af ímynd Svíþjóðar sem lands mannúðar á alþjóðavísu þá hafi þörfin innanlands gleymst. Aukið fylgi þjóðernisflokksins Svíþjóðardemókrata sé afleiðing þessa. Þrátt fyrir að flokkurinn hafi fjarlægst nýnasisma og annan rasisma sem voru áberandi á tíunda áratug síðustu aldar þegar Svíar tóku á móti gríðarlegum fjölda flóttafólks frá Balkanskaganum. 

Yfirvöld óttast nú endurris þessara hópa. Sænska ör­ygg­is­lög­regl­an,Säpo, telur að flestir nýliða í þessum hreyfingum séu fótboltabullur og fleiri svipaðir hópar sem  voru áberandi í árásum á innflytjendur á föstudagskvöldið.

Flóttafólk á leið til fyrirheitna landsins.
Flóttafólk á leið til fyrirheitna landsins. AFP

Á vef nýnasista (SMR), Nordront, er staðfest að um hundrað fótboltabullur sem fylgja AIK og Djurgården knattspyrnuliðunum hafi tekið þátt í árásunum. 

En eins og ritstjóri The Local í Svíþjóð segir: Kynferðislegt ofbeldi og kynþáttaníð er ekki dæmigert fyrir Svíþjóð nú ekkert frekar en áður. Þrátt fyrir að Svíþjóð sé kannski ekki lengur boðberi umburðarlyndis eins og áður þá er það röng mynd sem er dregin upp í alþjóðlegum fjölmiðlum um gríðarlega spennu á milli innfæddra og hælisleitenda, segir ritstjóri The Local, Maddy Savage.

Lögreglan handtók hóp nýnasista nýverið.
Lögreglan handtók hóp nýnasista nýverið. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert