Danir brutu gegn úrskurði Mannréttindadómstólsins

Inger Støjberg.
Inger Støjberg. AFP

Dönsk yfirvöld brutu væntanlega gegn úrskurði Mannréttindadómstól Evrópu með því að synja alvarlega veikum hælisleitenda um mannúðarvernd í Danmörku.

Ráðherra innflytjendamála, Inger Støjberg, viðurkenndi í umræðum á danska þinginu í gær að ráðuneytið hafi ekki staðið sig sem skyldi við að innleiða og aðlaga sig að úrskurði ECHR frá því í desember 2016.

„Svo ég segi það hreint út þá tók það of langan tíma að taka tillit til úrskurðarins. Það tók einnig of langan tíma að koma danskri aðlögun í gagnið,“ sagði Støjberg í fyrirspurnartíma í Kristjánsborg í gær.

Fyrr um daginn hafði Politiken birt frétt um að úrskurður ECHR eigi við í 11 málum í Danmörku og af þeim hafi sjö þegar verið gert að yfirgefa landið.

Ráðuneytið mun nú leita leiða hvernig sé hægt að taka upp mál þeirra að nýju. Úrskurðurinn, sem var birtur í desember 2016, snýst um brottvísun belgískra yfirvalda á Georgíumanninum Georgie Paposhvili.  Svo virðist sem starfsmenn í ráðuneyti Støjberg hafi ekki vitað af niðurstöðu hans fyrr en í mars í fyrra, það er þremur mánuðum síðar, og þá eftir að hafa fengið ábendingu frá dómsmálaráðuneytinu þar að lútandi.

Bæði Norðmenn og Svíar höfðu á þeim tíma þegar innleitt niðurstöðu Mannréttindadómstólsins. Eftir að ráðuneyti innflytjendamála áttaði sig á þessu, í mars 2017, liðu tveir mánuðir þangað til ráðuneytið sjálft hafði lagt drög að innleiðingu hennar í Danmörku. 

Støjberg segir að ekki hafi verið rétt staðið að innleiðingunni og áfram var ekki tillit til aðstæðna fólks á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Það var ekki fyrr en um síðustu helgi að ráðuneytið tilkynnti um að fólki sem hefur verið synjað um hæli en er alvarlega veikt skuli ekki vísað umsvifalaust úr landi heldur veitt tímabundið dvalarleyfi. Hún segir að þrátt fyrir þetta muni Danmörk ekki breyta reglum sínum og veita fleirum hæli en nú er. Aðeins sé um að ræða frestun á brottvísun. 

Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert