Twitter frystir 125 þúsund notendur

Twitter segir efni tengt hryðjuverkum óðum vera að færast af …
Twitter segir efni tengt hryðjuverkum óðum vera að færast af samfélagsmiðlinum. AFP

Twitter tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði fryst 125 þúsund notendur, flestum tengdum Ríki íslams, í tilraun til að gera út af við „efni tengt hryðjuverkum“ á samfélagsmiðlinum.

Þeir notendur sem voru frystir höfðu uppi ógnandi tilburði eða hvöttu til hryðjuverka að sögn fyrirtækisins. Twitter hefur verið undir þrýstingi frá ríkisstjórn Bandaríkjanna og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að bregðast við notendum tengdum hryðjuverkum en vill síður að almenningur líti svo á að á samfélagsmiðlinum sé viðhöfð ritskoðun.

„Eins og flest fólk um allan heim hryllir okkur við þeim grimmdarverkum sem framkvæmd eru af öfgahópum,“ segir í bloggfærslu frá fyrirtækinu.

„Við fordæmum notkun á Twitter við eflingu á hryðjuverkum og reglur Twitter segja skýrt að þessu tegund af hegðun, eða nokkur ofbeldisfull ógn, er ekki leyfileg með þjónustu okkar.“

Twitter hefur bent á að engin töfraleið sé til sem geti borið kennsl á efni tengt hryðjuverkum á veraldarvefnum og því neyðist netmiðlar oft til að taka erfiðar ákvarðanir byggðar á afar takmörkuðum upplýsingum.

„Þrátt fyrir þessar áskoranir munum við halda áfram að fylgja reglum okkar eftir af hörku hvað þetta varðar og vinna með yfirvöldum og öðrum viðeigandi stofnunum til að finna hagkvæmar lausnir við að eyða hryðjuverkaefni af netinu og hvetja til kraftmikillar andræðu.“

Twitter segist lengi hafa unnið að því að styrkja reglur sínar um ofbeldisfulla orðræðu samhliða því að tryggja opið rými til umræðu og tjáningar. Á síðustu mánuðum hafi miðillinn til að mynda stækkað það teymið sem fer yfir tilkynningar um óviðeigandi efni og það hafi skorið viðbragðstímann mikið niður.

„Við höfum þegar séð jákvæðar niðurstöður þar á meðal aukið hlutfall frystra reikninga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert