Fellur ekki frá rannsókn á nauðgun

Stofnandi WikiLeaks Julian Assange
Stofnandi WikiLeaks Julian Assange AFP

Ríkissaksóknari Svíþjóðar, Marianne Ny, mun ekki falla frá rannsókn á meintri nauðgun Julian Assange, stofnanda Wikileaks, þrátt fyrir niðurstöðu nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um að hann eigi að ganga frjáls ferða sinna.

Ny segir í tilkynningu sem hún sendi frá sér í dag að þrátt fyrir niðurstöðu sérstakrar nefndar á vegum SÞ í síðustu viku þá breyti það ekki mati hennar sem áður hefur komið fram.

Assange, sem er sakaður um nauðganir í Svíþjóð, hefur hvatt Breta og Svía til þess að fara að niðurstöðu SÞ og hann geti farið frjáls ferða sinna eftir að hafa haldið til í sendiráði Ekvador í á fjórða ár.

Hann neitar að fara til Svíþjóðar þar sem hann óttast að verða sendur til Bandaríkjanna vegna birtingu Wikileaks á leyniskjölum hersins, alls 500 þúsund skjölum. Nefnd SÞ fjallaði um mál Assange og komst að þeirri niðurstöðu að hann sætti ólöglegu varðhaldi og því bæri að ljúka. Virða ætti frelsi hans og að hann ætti rétt á bótum.

Ny segir að hún sé búin að sækja um á nýjan leik að fá að ræða við Julian Assange í sendiráði Ekvador í London. En Svíþjóð náði dómssátt við Ekvador í desember um að fá að ræða við Assange í sendiráðinu en í síðasta mánuði var beiðninni hafnað á tæknilegri forsendu. Ekki liggur fyrir í dag hvort Ekvador fellst á beiðni sænska saksóknarans.

DN.se 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert