Clooney býður Merkel aðstoð

Hjónin Amal Alamuddin og George Clooney
Hjónin Amal Alamuddin og George Clooney AFP

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel átti í dag fund með hjónunum Amal og George Clooney þar sem þau ræddu helsta málefnið í heiminum í dag - flóttamannavandinn. Leikarinn hefur boðið fram krafta sína til þess að vinna að lausn vandans og í svipaðan streng tekur Amal Clooney en hún er mjög þekktur mannréttindalögmaður.

Talsmaður kanslaraembættisins, Steffen Seibert, skrifar á Twitter að þau hafi rétt stefnuna í málefnum flóttamanna og hvernig þau gætu komið til aðstoðar.

George Clooney og Amal eru í Berlín í tengslum við kvikmyndahátíðina í borginni en málefni flóttafólks eru áberandi í kvikmyndum hátíðarinnar í ár.

Í gær hafði leikarinn sagt fréttamönnum að hann og kona hans myndu eiga fund með Merkel og eins hópi hælisleitenda. Þar myndi hann ræða vandann sem blasti við og um hvaða skilaboð og hvað þau gætu gert til þess að hjálpa. 

Á síðasta ári tóku Þjóðverjar á móti 1,1 milljón hælisleitenda en í Þýskalandi hefur andstaða við komu flóttafólks aukist jafnt og þétt. Gagnrýna margir frjálslynda stefnu Merkels í þessum málaflokki og í lok janúar sögðust tæplega 40% kjósenda vera á þeirri skoðun að Merkel ætti að segja af sér vegna stefnu sinnar í málefnum flóttafólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert