Breivik segist vera niðurlægður

Anders Breivik
Anders Breivik AFP

Norski fjöldamorðinginn Anders Breivik, sem myrti 77 manns í Osló og nágrenni árið 2011, er reiðubúinn að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu ef á þurfi að halda til þess að reyna að binda enda á einangrunarvist hans í Skien-fangelsinu í Noregi. 

Þetta er haft eftir lögmanni Breiviks, Øystein Storrvik, í frétt AFP í dag. Breivik ætlar í mál við norska ríkið vegna „ómannúðlegrar“ og „niðurlægjandi“ meðferðar sem brjóti að hans mati í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu. Storrvik segir einangrunarvistina hafa haft skaðleg áhrif á andlega heilsu Breiviks. Bendir hann meðal annars á að Breivik sé hættur að sinna námi sínu í fangelsinu sem lögmaðurinn telur til marks um þetta. Breikvik hefur einnig kært norska ríkið fyrir að brjóta gegn persónuvernd með því að ritskoða póstinn hans.

Ríkissaksóknari Noregs segir hins vegar að aðstæður Breiviks séu vel innan þeirra marka sem sett séu samkvæmt Mannréttindasáttmálanum. Þannig hafi Breivik aðgang að þremur fangaklefum. Einum til að búa í, einum til að sinna námi sínu og þeim þriðja til þess að stunda líkamsrækt. Þá hafi hann aðgang að sjónvarpi, tölvu án internets og leikjatölvu. Hann geti eldað eigin mat og þvegið af sér. Þó hann geti ekki átt í samskiptum við aðra fanga af öryggisástæðum eigi hann í samskiptum við fangaverði og sérfræðinga.

Breivik var dæmdur í 21 árs pangelsi árið 2012 sem hægt verður að framlengja verði hann enn talinn ógn við samfélagið. Mál hans verður tekið fyrir 15.-18. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert