Sendiskrifstofu Hollands lokað í Istanbúl

AFP

Hollensk stjórnvöld hafa rýmt og lokað sendiskrifstofu sinni í Istanbúl vegna hryðjuverkahættu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Hollands.

Þetta er gert í kjölfar hryðjuverkaárásar í borginni á laugardag sem kostaði fjóra lífið. Um sjálfsvígsárás var að ræða og er tilræðismaðurinn tengdur Ríki íslams.

Utanríkisráðherra Hollands, Bert Koenders, ákvað að loka skrifstofunni tímabundið vegna mögulegrar hryðjuverkaógnar. Hann ráðleggur öllum hollenskum ríkisborgurum að forðast að vera í nágrenni skrifstofunnar og sýna aðgát. Eðli málsins samkvæmt geti hann ekki greint nánar frá ógninni né heldur hvaðan hún sé.

Um fjörtíu manns voru í ræðismannsskrifsstofunni þegar hún var rýmd og voru starfsmennirnir fluttir á aðra staði þar sem þeir halda störfum sínum áfram. Koenders segir að það sé forgangsmál í huga stjórnvalda að tryggja öryggi starfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert