Undirbjuggu árásir á þýsk skotmörk

Þrír menn, Tyrki, Íraki og Sýrlendingur, eru í haldi lögreglunnar í Tyrklandi grunaðir um að hafa ætlað sér að fremja hryðjuverk á þýskum stofnunum, skólum eða sendiskrifstofum í landinu. Talið er að þremenningarnir séu liðsmenn Ríkis íslams en þeir voru handteknir í gær.

Þýsk yfirvöld lokuðu öllum stofnunum sínum í Tyrklandi í síðustu viku, þar á meðal sendiráði sínu í Ankara, sendiskrifstofum í Istanbúl og þýskum skólum í báðum borgunum.

Tyrkneska lögreglan handtók mennina í gær á grundvelli upplýsinga frá leyniþjónustu Tyrklands og Þýskalands.

Þegar þýsk yfirvöld tilkynntu á fimmtudag að þau ætluðu að loka stofnunum í Tyrklandi sagði utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, það gert vegna mjög áreiðanlegra upplýsinga um að það væri verið að undirbúa hryðjuverkaárásir.

Tveimur dögum síðar sprengdi liðsmaður Ríkis íslams sig upp á fjölfarinni götu í Istanbúl. Þrír Ísraelar og einn Írani létust og tugir særðust.

Handtökurnar í Istanbúl í gær eru hluti af víðtækum aðgerðum lögreglunnar en leitað er þriggja Tyrkja sem eru grunaðir um að vera að undirbúa árásir í nafni Ríkis íslams í Tyrklandi.

Tíu meintir liðsmenn Ríkis íslams til viðbótar voru handteknir á landamærum Sýrlands í gær og var einn þeirra íklæddur sprengjuvesti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert