Slæma vikan hans Trumps

Donald Trump á kosningafundi í dag.
Donald Trump á kosningafundi í dag. AFP

Forsetaframbjóðandinn Donald Trump á að baki erfiða viku. Hann þurfti að svara fyrir mörg erfið mál og aldrei þessu vant þá átti hann erfitt með að svara.

Í fyrsta lagi þá var kosningastjóri hans kærður fyrir líkamsárás. Trump reyndi að verja hann með sínum hætti, sagði hann aldrei hafa snert fréttamanninn sem hann er kærður fyrir að hafa lagt hendur á. Sagði Trump fréttamanninn reyndar hafa lagt sig í einelti, svo eina fórnarlambið í málinu öllu saman væri hann sjálfur. 

En það var þó ekki fyrr en hann fór í viðtal við fréttamann MSNBC á miðvikudag sem ástandið fór verulega að versna hjá Trump. Fréttamaðurinn spurði hann um fóstureyðingar. Trump hefur sagt að hann muni breyta fóstureyðingarlögum ef hann verður forseti.

Fréttamaður NBC spurði hann því hvað ætti að gera við þær konur, sem myndu engu að síður fara í fóstureyðingu, þó að lögum yrði breytt. „Svarið er að það verður að vera einhvers konar refsing,“ sagði Trump.

Og þá varð allt vitlaust. 

Bæði hópar sem styðja fóstureyðingar mótmæltu og einnig þeir sem eru á móti þeim. Að lokum sá Trump sér ekki fært annað en að „skýra mál sitt“, eitthvað sem hann er ekki þekktur fyrir að gera. Í yfirlýsingu hans sagði hann að konum sem færu í fóstureyðingu ætti aldrei að refsa heldur heilbrigðisstarfsfólkinu sem framkvæmdi þær. 

Vandræði Trumps héldu svo áfram.

Við bættist skoðanakönnun Marquette lögfræðiskólans en samkvæmt henni var Ted Cruz með 40% stuðning meðal Repúblikana en Trump 30%. Skömmu síðar birtist könnun Fox-sjónvarpsstöðvarinnar sem sýndi svipaða niðurstöðu.

Samantekt CNN um vikuna hans Trumps og samantekt Washington Post um sama mál.

Donald Trump á kosningafundi í Wisconsin í dag.
Donald Trump á kosningafundi í Wisconsin í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert