Eins og að vera kýldur í magann

Anders Behring Breivik vann mál gegn norska ríkinu í dag.
Anders Behring Breivik vann mál gegn norska ríkinu í dag. LISE ASERUD

Norskur mannréttindalögfræðingurinn segir dóminn sem féll í máli fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik gegn norska ríkinu í dag „ótrúlegan“ og telur að ekkert sem kom fram í réttarhöldunum sýni að brotið hafi verið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu í meðferð Breivik. 

Mannréttindalögfræðingurinn Kjetil M. Larsen  ræddi við NRK í dag um dóminn sem eins og fyrr segir féll í dag. Brei­vik vann málið og komst dóm­stóll að þeirri niður­stöðu að skil­yrði fang­elsis­vist­ar hans brjóti gegn Mann­rétt­ind­arsátt­mála Evr­ópu.

Brei­vik hélt því m.a. fram að brotið hefði verið gegn þriðju grein sátt­mál­ans þegar hann var lát­inn gang­ast und­ir lík­ams­leit, ít­rekað vak­inn á næt­urn­ar og lát­inn sæta ein­angr­un­ar­vist. Í þriðju grein sáttmálans segir að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Fyrir réttarhöldin í síðasta mánuði sagði Larsen það augljóst að ekki hafði verið brotið gegn mannréttindasáttmálanum við meðferðina á Breivik í fangelsinu í Skien.

„Eftir réttarhöldin var ég ennþá vissari,“ sagði Larsen í samtali við NRK. „Ég held að það sem kom í ljós við réttarhöldin sýni að það var augljóslega ekki brotið á þriðju grein sáttmálans.“

Larsen segist ætla að lesa dóminn vandlega til að reyna að sjá á hverju ákvörðun dómstólsins er byggð. Hann telur þó ekki að dómurinn í dag hafi mikil áhrif á fangelsin í Noregi eða Breivik sjálfan og telur það víst að ríkið muni áfrýja dómnum.

Larsen er ekki sá eini sem var ósáttur við dóminn.

Eskil Pedersen sem var formaður æskulýðssamtaka Verkamannaflokksins, AUF árið 2011 sagðist á Facebook síðu sinni vera bæði reiður og í áfalli yfir niðurstöðunni. „Ég held að mörgum líði eins og þeir hafi verið kýldir í magann,“ sagði Pedersen í samtali við NRK. Eins og kunnugt er voru liðsmenn AUF í Útey þegar að Breivik kom þangað í júlí og myrti tugi meðlima. 

„Ég veit að við búum í lýðræðisríki þar sem meira að segja hryðjuverkamenn eiga að njóta mannréttinda, en ég verð að viðurkenna að ég verð reiður þegar ég sé hvað hann hefur náð langt í þessu máli,“ sagði Pedersen.

Hann vildi ekki ræða dóminn í þaula en sagði það ljóst að margir þeirra sem annað hvort lifðu árásir Breivik af eða misstu ástvini í þeim séu í áfalli. „Ég skil það vel og ég vil segja þeim að þau eigi allan rétt á því að vera reið í dag.“

Þá sagði hann það „fáránlegt“ að Breivik hafi unnið málið í dag.

Anders Anundsen, dómsmálaráðherra Noregs, sagði í samtali við NRK mikilvægt að mál Breivik fengi eðlilega meðferð í dómskerfinu og að eðli glæpsins sem hann framdi árið 2011 hafi eki áhrif. Sagðist hann þó skilja að fólk myndi bregðast illa við.

Brei­vik var dæmd­ur í 21 árs fang­elsi í ág­úst 2012 fyr­ir að hafa myrt 77 manns ári áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert