Þrír ákærðir vegna blýmengunar

Bill Schuette á blaðamannafundinum í dag.
Bill Schuette á blaðamannafundinum í dag. AFP

Dómsmálaráðherra Michigan ríkis hefur ákært þrjá í tengslum við vatnsmengunina í borginni Flint. Um er að ræða tvo starfsmenn á umhverfissviði Michigan ríkis og einn starfsmann borgaryfirvalda í Flint. Starfsmenn umhverfissviðsins eru sakaðir um að hafa blekkt bandarísk stjórnvöld og svo á borgarstarfsmaðurinn að hafa átt við niðurstöður prófana á vatninu.

Blýmengun í vatninu í borginni hafði áhrif á næstum því 100.000 íbúa borgarinnar en stærstur hluti íbúanna býr við mikla fátækt.

Málið hefur vakið mikla athygli en blýið getur orsakað hegðunarvandamál í börnum og gert þeim erfitt að læra. Þá hafa íbúar sagt frá einkennum eins og útbrotum og hármissi. 

„Það var þeirra skylda að vernda heilsu fjölskyldna og íbúa Flint og þeim mistókst,“ sagði dómsmálaráðherrann Bill Schuette á blaðamannafundi í dag þegar hann sagði frá ákærunum.

Málið hefur vakið gríðarlega athygli en einnig reiði og snýst málið um miklu meira en mengað vatn heldur þá frekar um mistök yfirvalda og ábyrgðarskyldu þeirra. 

Ákærurnar í dag eru taldar tákna lítið skref í átt að því að finna út hver ber ábyrgð á menguninni sem hefur haft þessi alvarlegu áhrif.

Ríkisstjóri Michigan, Rick Snyder, hefur lofað því að finna þá sem bera ábyrgð. Þá tilkynnti hann í vikunni að hann myndi drekka síað vatn frá Flint næstu 30 dagana. Kallað hefur verið eftir  því að Snyder segi af sér vegna málsins en hann var spurður út í mengunina á bandaríska þinginu í mars. Þar lofaði hann því að málið yrði rannsakað í þaula.

Sjö fjölskyldur í Flint hafa lögsótt borgaryfirvöld vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert