Engar breytingar strax á fangelsisdvöl Breivik

Ekki verða strax gerðar breytingar á aðstæðum Breivik í Skien …
Ekki verða strax gerðar breytingar á aðstæðum Breivik í Skien fangelsinu. LISE ASERUD

Engar breytingar verða að sinni gerðar á aðstæðum norska fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik í Skien fangelsinu. Norskur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu í gær að skilyrði fangelsisvistar hans brjóti gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.

Héraðsdómstóllinn í Osló úrskurðaði í gær að Breivik, sem ekki hefur fengið að hafa samneyti við aðra fanga í þau tæp fimm ár sem hann hefur setið þar inni, sætti ómannlegri og niðurlægjandi meðferð sem bryti í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu.

AFP-fréttastofan spurði Ole Kristoffer Borhaug, fangelsisstjóra Skien, hvort skilyrðum fangavistar Breivik yrði breytt. Sagði Borhaug engar breytingar verða gerðar á næstunni þar sem dómurinn væri ekki enn aðfararhæfur.  

Norska ríkið hefur ekki enn gefið upp hvort það muni áfrýja dóminum sem kom mörgum á óvart.

Brei­vik hefur verið vistaður í öryggisfangelsi allt frá því hann myrti 77 manns árið 2011, en hann var dæmdur til 21 árs fangelsisvistar ári síðar.

Dómstóllinn úrskurðaði að brotið brotið hefði verið gegn þriðju grein Mannréttindasátt­mál­ans þegar Breivik var lát­inn gang­ast und­ir lík­ams­leit, ít­rekað vak­inn á næt­urn­ar og lát­inn sæta ein­angr­un­ar­vist.

Í kjölfar úrskurðarins krafðist lögfræðingur Breivik, Oystein Storrvik, þess að einangrunarvist skjólstæðings síns yrði samstundis rofin.

Breivik hefur þrjá klefa til afnota í Skien fangelsinu og eru þeir búnir tveimur sturtuklefum, tveimur sjónvarpstækjum, Xbox og Playstation leikjatölvum, ritvél, bókum og dagblöðum.

 Brei­vik hélt því einnig fram að ríkið hefði brotið gegn átt­undu grein Mann­rétt­inda­sátt­mál­ans með því að stöðva bréfa­send­ing­ar hans úr fang­elsi og með því að synja honum um heimsóknir, en þessum kæruliðum hafnaði dómstóllinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert