Borðuðu eitrað sætabrauð og létust

Lögreglan í Pakistan að störfum.
Lögreglan í Pakistan að störfum. AFP

Að minnsta kosti 23 eru látnir og tugir liggja veikir á sjúkrahúsi eftir að hafa borðað sætabrauð sem lögreglan telur að hafi verið mengað af skordýraeitri.

Umar Hayat, íbúi í Punjab-héraði í Pakistan, dreifði sætabrauði meðal vina þann 17. apríl til að fagna fæðingu barnabarns hans. Veislan breyttist í martröð er tíu manns létust þennan sama dag. 

Nú eru 23 látnir og 52 liggja veikir á sjúkrahúsum. Meðal hinna látnu er faðir nýfædda drengsins  og sjö frændur hans. 

Lögreglan hefur handtekið bræður sem reka bakaríið þar sem sætabrauðið var framleitt. Talið er mögulegt að bræðurnir hafi óvart bætt skordýraeitrinu í brauðið. Lögreglan segir að í nágrenni bakarísins sé búð sem selji skordýraeitur. Hún var lokuð vegna viðhalds og eitrið hafði verið geymt í bakaríinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert