Spaðarnir fluttir af vettvangi í dag.

Lögreglumaður ræðir við fjölmiðla á slysstað.
Lögreglumaður ræðir við fjölmiðla á slysstað. AFP

Þyrluspaðar EC225 Super Puma þyrlunnar sem hrapaði í Noregi í gær voru fluttir á brott til rannsóknar í dag. Spaðarnir virðast hafa rifnað af þyrlunni í miðju flugi og lentu þeir á litlum hólma, en meginhluti flaks þyrlunnar fannst í hafinu um 200 metra frá. Flakið lá á um sjö metra dýpi og var hluti þess hífður upp í gær og restin í dag.

Þrettán manns létust í slysinu, tólf karlmenn og ein kona. Konan var yngst, 32 ára en mennirnir voru allir milli fertugs og sextugs. Lögregla segir að lokið verði við að bera kennsl á lík og líkamsparta innan fimm daga. Þangað til sé enn óljóst hvort allir séu fundnir.

Um 100 aðstandendur hinna látnu hafa komið til Bergen þar sem sett hefur verið upp sérstök móttöku- og áfallamiðstöð fyrir hópinn. Erna Solberg, forsætisráðherra heimsótti miðstöðina í dag ásamt krónprinsparinu og sagði það hafa verið sterka tilfinningu.

„Það er alltaf erfitt að hitta syrgjandi manneskjur. Frá þeim yngsta sem er sex vikna og þeim elsta sem er meira en áttræður. Það sýnir róf þeirra sem slysið hefur áhrif á.“ 

Samkvæmt NRK hafa aðstandendur ekki enn komið á slysstaðinn en það stendur til. 

Erna Solberg ræðir við fjölmiðla utan við miðstöð aðstandenda.
Erna Solberg ræðir við fjölmiðla utan við miðstöð aðstandenda. AFP

Í viðgerð fyrir þremur dögum

Þremur dögum fyrir slysið hættu flugmenn þyrlunnar við leiðangur eftir 16 mínútna flug. Talsmaður þyrluþjónustunnar CHC sagði í samtali við NRK að skipt hefði verið um hlut í þyrlunni.

„Á þriðjudag kviknaði á viðvörunarljósi.Þá skiptum við um hluti samkvæmd venju og fórum í prufuflug daginn eftir. Þegar lampinn lýsti enn skiptum við um annan hlut. Þá lýsti lampinn ekki og þyrlan fór í sex farþega flug á fimmtudag án uppákoma,“ sagði Claus Sonberg. Hann sagði jafnframt að bilunin hefði hvorki haft með spaða né gíra þyrlunnar að gera.

Formaður stéttarfélagsins Safe segir verkamenn á borpöllunum lengi hafa óttast slys og að það hafi fengið fjölda tilkynninga í tengslum við viðhald á þyrlunum.  

Þyrluspaðarnir fundust á þurru en flakið sjálft í vatni.
Þyrluspaðarnir fundust á þurru en flakið sjálft í vatni. AFP

Fljúga meira undir auknum þrýstingi

Daginn áður en slysið átti sér stað kom út skýrsla á vegum norska Olíueftirlitsins um öryggi á norskum borpöllum. Skýrslan fjallaði m.a. um öryggi í þyrluflugi, til og frá pöllunum, og þó svo að sá hluti væri að mestu leiti jákvæður komu fram athugasemd um að á síðustu árum hefðu komið upp nokkur atvik í kjölfar þess að flugmenn sleppi eða gleymi að fylgja verklagsreglum.

Í skýrslunni stendur að vinna gegn þessari tilhneigingu standi yfir en að erfiðir tímar í olíubransanum geri henni erfitt fyrir. Krafan um framleiðni sé meiri en áður, skera þurfi niður kostað og flugmennirnir þurfi því að fljúga meira og séu undir auknum þrýstingi við vinnu sína. NRK tekur þó fram í umfjöllun sinni að enn séu orsakir slyssins ekki ljósar og að ekkert bendi til þess að svo stöddu að flugmennirnir hafi ekki sinnt sinni vinnu sem skyldi. 

Allar þyrlur af sömu tegund og sú sem hrapaði hafa verið kyrrsettar. Óvíst er hversu lengi flugbannið mun vara.

Flak þyrlunnar híft upp.
Flak þyrlunnar híft upp. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert