Rousseff neitar að gefast upp

Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, segir í samtali við breska ríkisútvarpið að hún sé „saklaust fórnarlamb“ og að hún muni halda áfram að berjast, en útlit er fyrir að hún verði ákærð fyrir embættisbrot. 

Rousseff er sökuð um að hafa látið falsa ríkisreikninga í því skyni að leyna vaxandi fjárlagahalla. Hún neitar þessum ásökunum. 

Rousseff hefur átt mjög undir högg að sækja vegna versnandi efnahagsástands og hneykslismála í tengslum við Petrobras, olíufyrirtæki ríkisins. Sannað þykir að Petrobras hafi lengi greitt frammámönnum í stjórnmálunum og viðskiptalífinu mútur, m.a. lagt fé í kosningasjóði Rousseffs og forvera hennar í forsetaembættinu, Luiz Inacio Lula da Silva.

Það er í höndum efri deildar brasilíska þingsins að ákveða hvort réttarhald muni hefjast í næstu viku þar sem fjallað verður um ákæru á hendur henni. Verði það að veruleika þá þarf Rousseff að víkja úr embætti í 180 daga. 

Í nýlegum skoðanakönnunum brasilískra dagblaða kemur fram að meirihluti öldungadeildarþingmannanna, sem eru 81 talsins, vilji hefja réttarhöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert